HM og veðrið haft sitt að segja

Um 60 þúsund manns skoðuðu íshellinn Into the Glacier í ...
Um 60 þúsund manns skoðuðu íshellinn Into the Glacier í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Um þremur til fimm prósentum færri ferðamenn hafa heimsótt íshellinn Into the Glacier í Langjökli á þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier ehf., segir að baráttan um ferðamennina sé greinilega orðin meiri en verið hefur.

Fram hefur komið að ferðamenn dvelja skemur hér á landi en áður, fara í færri ferðir tengdar afþreyingu og spara við sig í mat og drykk.  

Ljósmynd/Aðsend

Veðráttan haft sitt að segja

Aðsóknin í íshellinn hefur verið mismunandi á milli mánaða. Hún dróst til að mynda saman um fimm til átta prósent á meðan á HM í knattspyrnu stóð en ágúst hefur aftur á móti verið góður, að sögn Sigurðar.

„Veðráttan hefur verið mjög sérstök í sumar. Þar var kalt framan af og og lítil bráðnun, sem er bæði jákvætt og neikvætt,“ segir hann og bendir á að eftir því sem meiri snjór er á jöklinum er hann öruggari en á sama tíma er erfðara að komast í hellinn í verri færð.

Spurður segir hann samdráttinn á þessu ári ekki hafa mikil áhrif á reksturinn. Ekki var gert ráð fyrir mikilli aukningu ferðamanna í sumar, heldur svipuðu og í fyrra, sem hafi verið „frábært“ ár.

Einnig spilar inn í minni aðsókn að veðurfarið í vetur var slæmt, sérstaklega í janúar og febrúar, sem voru verstu mánuðirnir síðan rekstur hellisins hófst. Þá var hann lokaður í á annan tug daga.

Kapellan inni í hellinum.
Kapellan inni í hellinum. Ljósmynd/Aðsend

Bandaríkjamönnum fjölgað en Evrópubúum fækkað

Á síðasta ári skoðuðu um sextíu þúsund manns hellinn en fjöldinn verður eitthvað minni í ár. Um 90% gestanna eru erlendir ferðamenn.

Bandarískum gestum hefur fjölgað mest í ár og eru þeir jafnframt stærsti einstaki kúnnahópurinn. Næstir á eftir koma Bretar og saman mynda þeir um helming gesta Into the Glacier.

Evrópubúum hefur aftur á móti fækkað, sérstaklega Þjóðverjum, sem Sigurður segir tengjast gjaldþroti flugfélagsins Air Berlin sem hætti þar með beinu flugi til landsins.

Ljósmynd/Aðsend

15-20 þyrluferðir 

Trukkaferðin er vinsælasta pakkaferðin í hellinn, að sögn Sigurðar. Auk þess hefur áhugi á vélsleðaferðum í samvinnu við Mountaineers of Iceland verið að aukast.  Spurður út í giftingar í hellinum segir hann þær hafa verið nokkrar á þessu ári, þrjár til fjórar talsins.

Einnig er boðið upp á þyrluferðir að íshellinum sem kosta um 190 þúsund krónur. Sigurður segir að 15 til 20 slíkar ferðir hafi verið pantaðar á þessu ári, sem er minna en á sama tíma undanfarin ár. Þar hefur slæmt veður eflaust haft sitt að segja. Hann telur níu þyrlulendingar á einum degi með hópa vera met sem seint verði toppað en það hafi ekki verið á þessu ári.

Aukið rekstraröryggi 

„Aðalfókusinn okkar á árinu hefur verið auka rekstaröryggi,“ greinir Sigurður frá og nefnir að trukkum hafi verið fjölgað og að verið sé að reisa stóra vélaskemmu á Húsafellssvæðinu til að geta sinnt viðhaldi. Samtals nemur fjárfestingin um 100 milljónum króna. 

„Við förum inn í veturinn með auka tæki og verkstæði þannig að rekstraröryggið er orðið allt annað en það hefur verið.“

Samtals eru sjö trukkar í eigu fyrirtækisins, þar af sex farþegatrukkar og einn þjónustutrukkur.

Það er töluverð fjölgun frá því verkefni hófst árið 2015 þegar tveir trukkar voru í notkun. Á degi hverjum eru fjórir til fimm trukkar notaðir en ef eitthvað kemur upp á er afgangurinn til vara.

Spurður segir Sigurður reksturinn í fyrra gengið mjög vel og í raun hafi hann gengið vel frá upphafi. Hann hafi ávallt verið yfir núlli. „Það hafa verið gríðarlegar fjárfestingar að sama skapi. Við höfum staðið straum af þeim að mestu leyti sjálf,“ segir hann og lítur björtum augum á framtíðina. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir