CCP selt til Suður-Kóreu

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/CCP

Suðurkóreska tölvuleikjafyrirtækið Pearl Abyss stefnir að því að kaupa allt hlutafé í íslenska tölvuleikjafyrirtækinu CCP fyrir 425 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði um 46 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið verður greitt í reiðufé, að hluta til strax nú í haust þegar búið er að ganga endanlega frá samningum, en annar hluti greiðslunnar er árangurstengdur til tveggja ára. 

Nú þegar hafa um 95% hluthafa samþykkt kauptilboðið og í framhaldinu verður minnihlutaeigendum boðið að selja sinn hlut á sömu kjörum og eiga menn ekki von á öðru en allir minnihlutaeigendur gangi inn í kaupsamninginn. Að öðrum kosti kemur til innköllunar og liggur því ljóst fyrir núna að allt hlutafé verður í eigu Pearl Abyss fyrir árslok. Pearl Abyss var stofnað árið 2010 og er skráð í kauphöllina í Kóreu. Markaðsvirði félagsins er um 320 milljarðar íslenskra króna. Félagið er með sex starfsstöðvar í Asíu, tvær í Evrópu og eina í Bandaríkjunum. CCP, sem var stofnað árið 1997, er með starfsstöðvar í Reykjavík, London og Shanghai.

Starfsemi CCP verður óbreytt hér á landi eftir söluna. Enginn starfsmaður missir vinnuna, en um 200 manns vinna hjá CCP á Íslandi og um 50 í Bretlandi og Shanghai. Stjórnendur félagsins verða áfram þeir sömu og áform um flutning í nýtt húsnæði í Vatnsmýri standa óhögguð

Novator lætur CCP stolt í hendur Pearl Abyss

Birgir Már Ragnarsson hjá Novator Partners og stjórnarformaður CCP segir að Novator hafi orðið stærsti hluthafi CCP árið 2005 og hafi verið leiðandi fjárfestir í fyrirtækinu í rúmlega 13 ár, hin síðari í góðu samstarfi við meðfjárfestana General Catalyst Partners og New Enterprise Associates. „Á þeim tíma hefur fyrirtækið vaxið úr litlu tölvuleikjafyrirtæki í að reka starfsstöðvar víða um heim með hundruðum starfsmanna. Hilmar Veigar Pétursson og allt hans skapandi og einarða teymi hefur byggt upp félag sem Novator lætur nú stolt í hendur Pearl Abyss. Saman verða þessi félög firnasterk og munu vera í góðri stöðu til að halda áfram að vaxa,“ segir Birgir.

Hann segir að Novator fagni því sérstaklega að hafa fengið erlenda fjárfesta enn á ný til að fjárfesta í íslensku hugviti. „Árið 2015 lagði einn stærsti framtakssjóður heims, New Enterprise Associates, fjóra milljarða króna í nýtt hlutafé í CCP, en áður hafði General Catalyst Partners komið þar inn. Árið 2017 var gengið frá kaupum PT Capital á meirihluta í fjarskiptafyrirtækinu Nova, fyrir um átta milljarða króna. Síðar það sama ár keypti bandaríska félagið NetApp íslenska hugbúnaðarfélagið GreenQloud á 5,3 milljarða króna og nú hefur Pearl Abyss keypt CCP á um 45 milljarða króna. Sú trú, sem erlendir fjárfestar sýna íslensku atvinnulífi með þessum fjárfestingum, er mikilvæg íslensku samfélagi og Novator er stolt af að eiga þar stóran hlut að máli.”

Ræddu við 40 aðila

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP til 18 ára, og einn af stærstu hluthöfum félagsins með 6,51% hlut, segir í samtali við Mbl.is að kaupin nú séu endalokin á ferli sem búið sé að vera í gangi allt þetta ár. Rætt hafi verið við nálægt 40 aðila um kaup á félaginu, bæði fjárfesta og tölvuleikjafyrirtæki á markaði. Viðræðurnar hafi hafist í framhaldi af breytingum sem CCP gerði á síðasta ári, þegar félagið hætti framleiðslu á sýndarveruleikatölvuleik, og beindi sjónum sínum eingöngu að þróun leikja fyrir farsíma og PC-tölvur. Niðurstaða viðræðnanna hafi verið að semja við Pearl Abyss sem þekktast er fyrir fjölspilunarleikinn Black Desert Online, sem svipar til EVE Online, að sögn Hilmars. „Black Desert er svona í stíl við EVE Online, eins mikið og íslenskur og kóreskur leikur geta verið í stíl,“ segir Hilmar Veigar.  „Við kynntumst Pearl Abyss þegar við vorum í ferlinu sem við höfum verið á þessu ári, og það var niðurstaðan eftir nokkuð ítarlegt samtal milli fyrirtækjanna tveggja og við hluthafa okkar að nú væri góður tímapunktur að selja. Pearl Abyss verður frábært framtíðarheimili fyrir næsta kafla í sögu CCP.“

En hver er ástæða sölunnar núna?

„Félagið er í meirihlutaeigu fjárfesta, og lokatakmark þeirra er alltaf að selja. Hvenær það gerist er svo alltaf blanda af því hvernig mál standa innanbúðar og á markaði. Stefnubreytingin okkar á síðasta ári vakti miklu meiri athygli en við áttum von á, og við ræddum við marga. Þeir hjá Pearl Abyss stóðu hins vegar upp úr hvað varðar sameiginlega framtíðarsýn. Það er mikill menningarlegur samhljómur milli fyrirtækjanna tveggja þótt ótrúlegt sé. Ísland og Kórea eru kannski ekki mjög lík, en fyrirtækin tvö eiga sameiginlegan sjúklegan áhuga á nördalegum tölvuleikjum,“ segir Hilmar og brosir.

Hversu miklu máli skipti kaupverðið í þessari niðurstöðu?

„Verðið skiptir alltaf miklu máli í svona málum, og okkar fjárfestar eru engar sérstakar góðgerðarstofnanir þannig lagað. En peningar eru ekki allt. Þegar samlegðin er mikil, þá er oft verðlagt í því ljósi. Þetta small allt saman í þessu fyrirtæki þarna í Kóreu.“

Spurður nánar um framtíð CCP hér á landi í kjölfar sölunnar segir Hilmar Veigar að félagið hafi síðustu misseri verið duglegt að benda á það sem betur mætti fara hér á landi í rekstrarumhverfi tæknifyrirtækja. „Við stefnum auðvitað að því að efla starfsemina á Íslandi og stuðla að því að fleiri svona fyrirtæki geti orðið til. Við höldum því samtali áfram við bæði stjórnvöld og stuðningskerfið.“

Suður-kóreska tölvuleikjafyrirtækið Pearl Abyss stefnir nú að því að kaupa …
Suður-kóreska tölvuleikjafyrirtækið Pearl Abyss stefnir nú að því að kaupa allt hlutafé í CCP.

Spurður um viðhorf nýja eigandans til áframhaldandi starfsemi CCP hér á landi segir Hilmar Veigar að Pearl Abyss sjái engar breytingar fyrir sér á uppbyggingu fyrirtækisins hvað það varði. Það verði áfram í höndum stjórnenda CCP að ákveða slíkt. „Ákvarðanir um slík mál snúast alltaf um hvar er gott rekstrarumhverfi, hvar fæst gott starfsfólk og hvar eru stjórnvöld sem sýna þessu áhuga. Það eru þessi sígildu mál sem eru höfð að leiðarljósi. Það hefur náðst árangur á því sviði hér á landi, þá sérstaklega varðandi endurgreiðslu á fé sem varið er til rannsóknar og þróunar, en þar er ákveðið þak á endurgreiðslum sem hentar stærri fyrirtækjum illa. Það þak þyrfti að afnema. Einnig hafa verið gerðar góðar breytingar varðandi flutning erlends starfsfólks með reynslu til Íslands, bæði á atvinnuleyfum og öðru slíku. Við hlökkum til að eiga þetta samtal áfram við stjórnvöld.“

Kórea langt á undan öðrum þjóðum

Spurður um kóreska markaðinn og verðlagningu Pearl Abyss á markaði í samhengi við kaupverð CCP segir Hilmar að asíski markaðurinn verðleggi tölvuleikjafyrirtæki mun hærra en gert er á Vesturlöndum. „Að einhverju leyti er tölvuleikjamarkaðurinn þróaðri í Asíu. Tölvuleikir hafa blómstrað í Kóreu, Kína og Japan, miklu meira síðustu ár en á Vesturlöndum. Það er kannski fyrst núna með Fortnite-tölvuleiknum sem fólk á Vesturlöndum er að upplifa í raun og veru hvað tölvuleikir eru orðnir stórir. Þetta er hins vegar búinn að vera raunveruleiki í Asíu síðusta áratuginn. Þá hafa fjármálamarkaðir í Asíu alltaf verið talsvert á undan fjármálamörkuðum á Vesturlöndum hvað verðmat á svona fyrirtækjum og þeirra framtíðarmöguleikum varðar.“

Hilmar segir aðspurður að Kóreumarkaður skeri sig úr hvað varðar styrk á þessu sviði. Mjög mörg sterk kóresk fyrirtæki hafi komið upp á síðustu 20 árum. „Við sem erum að einhverju leyti framarlega í þessum bransa horfum mest til Kóreu í þessum efnum. Það sem er að gerast þar í dag í tölvuleikjaiðnaðinum gerist á Vesturlöndum eftir fimm ár.“

En hvað með Eve Online, nýtur leikurinn vinsælda í Kóreu?

„Eve Online hefur aldrei verið settur formlega á markað í Kóreu. Hann er ekki þýddur á kóresku, sem er forsenda þess að ná árangri. Við erum samt með nokkur þúsund spilara þar sem spila ensku útgáfuna. Þeir fíla hann í botn. EVE Online er „harðkjarna“ leikur og Kóreumenn er mjög mikið fyrir þannig leiki. Meðal þess sem við munum skoða með Pearl Abyss er hvort við setjum EVE Online formlega á markað í Kóreu.“

Spurður um hversu umfangsmikið verkefni það gæti orðið segir Hilmar að núna standi yfir vinna við endurútgáfu á leiknum í Kína í samstarfi við kínverska fyrirtækið NetEase, sem lýkur í október – nóvember nk. „Kína er töluvert stærri markaður auðvitað. En hluti af þeirri vinnu mun nýtast við að setja leikinn mögulega á markað í Kóreu. Þegar við ljúkum við endurútgáfuna í Kína þurfum við að skoða hvað við gerum næst. Ég held að við munum mögulega blása til sóknar í Kóreu eða í Rússlandi. Rússlandsmarkaður er mjög sterkur fyrir okkur. Ég held að ástæða þess að Eve Online höfði til Rússa sé til að mynda geimferðaáætlun landsins.“

Pearl Abyss er þekktast fyrir fjölspilunarleikinn Black Desert Online, sem …
Pearl Abyss er þekktast fyrir fjölspilunarleikinn Black Desert Online, sem svipar til EVE Online.

Spurður um mögulega samlegð milli fyrirtækjanna í kjölfar kaupanna segir Hilmar að CCP verði áfram rekið sem sjálfstæð eining innan Pearl Abyss. „Nú hafa mörg asísk fyrirtæki, sérstaklega kínversk, verið að kaupa upp tölvuleikjafyrirtæki um allan heim, og það hefur nær alltaf verið þannig að fyrirtækin halda áfram sínum sjálfstæða rekstri. Slíkt hefur reynst vel. Í okkar tilviki verður vissulega eitthvert samstarf á heimamarkaði hvors fyrirtækis fyrir sig, og ég hugsa að við munum mögulega hjálpa Pearl Abyss með utanumhald um markaði á Vesturlöndum vegna reynslu okkar þar. En á hinn bóginn munu þeir tvímælalaust hjálpa okkur í Kóreu og í Asíu. Það eru engar áætlanir um að fara í frekari samruna.“

Eins og íslenski ferðamannabransinn

Eins og fyrr sagði er Eve Online stærsti leikur CCP, með um 300 þúsund notendur, og sá sem skapar félaginu mestar tekjur. „EVE Online gengur og gengur. Við breyttum um tekjumódel fyrir tveimur árum og nú er hægt að spila leikinn ókeypis. Við þessa breytingu fjölgaði notendum töluvert. Tekjumódelið virkar þannig núna að fólk hefur val um að greiða áskrift og fá þá aukna virkni í staðinn eða kaupa aukahluti í leiknum. Þetta er kannski svipað og ferðamannabransinn er á íslandi. Ferðamenn borga ekki skatt á Íslandi en kaupa mikið af vörum og þjónustu. Íslendingar borga skatt. Á sama hátt borgar hluti af Eve-spilurum skatt í formi áskriftar, en hluti spilara er meira eins og ferðamenn sem eyða peningum í leiknum á meðan þeir eru í honum. Þetta módel, free-to-play, var einmitt fundið upp í Kóreu fyrir um 20 árum og nú hefur það tekið yfir stærstan hluta netleikja.“

EVE Online er þó ekki eini leikurinn sem CCP framleiðir. Hilmar segir að fram undan séu tveir nýir snjallsímaleikir. „Svo erum við að vinna í skotleiknum Project Nova hér á Íslandi sem kemur væntanlega á markað seinna á árinu. Í London erum við að vinna í nýjum fjölspilunarleik sem kemur á markað eftir 2-3 ár, þannig að það er nóg að gera á öllum vígstöðvum.“

Hilmar segir að skotleikjamarkaðurinn sé risastór, og til dæmis spili um 125 milljón manns skotleikinn Fortnite, sem minnst var á hér að framan. „Við værum sátt við að ná einu prósenti af þeirra notendafjölda inn í Project Nova.“

Hilmar segist að lokum vera mjög sáttur við sölu félagsins. Um góða niðurstöðu sé að ræða fyrir alla hlutaðeigandi. „CCP er rúmlega tuttugu ára gamalt fyrirtæki og núna eru nokkrir hluthafar að selja sig út sem hafa verið með frá upphafi, auk annarra íslenskra og bandarískra fagfjárfesta sem komu inn með nýtt hlutafé á mikilvægum tímapunkti fyrir nokkrum árum. Allir fá góða ávöxtun af fjárfestingunni. Það hefur verið mikill styrkur fyrir félagið að hafa sterka hluthafa sem hafa haft trú á framtíð fyrirtækisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK