Hagnast um milljarða á sölu CCP

CCP hefur meðal annars framleitt tölvuleikinn EVE-online sem hefur notið …
CCP hefur meðal annars framleitt tölvuleikinn EVE-online sem hefur notið mikilla vinsælda í meira en áratug. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ávöxtun framtakssjóðsins New Enterprise Associates (NEA) á fjárfestingu sinni í tölvuleikjafyrirtækinu CCP árið 2015 verður um 68,2 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 7,5 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag gangi salan á CCP til suðurkóreska tölvuleikjafyrirtækisins Pearl Abyss eftir. Ávöxtun annars stórs hluthafa, General Catalyst, nemur svipaðri upphæð, en félagið keypti sinn hlut árið 2012. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, fær rúmlega þrjá milljarða í sinn hlut fyrir 6,51% eignarhlut sinn.

Eins og mbl.is greindi frá í dag stefnir Pearl Abyss á að kaupa allt hlutafé í CCP fyrir 425 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 46 milljarða íslenskra króna. Kaup­verðið verður greitt í reiðufé, að hluta til strax nú í haust þegar búið er að ganga end­an­lega frá samn­ing­um, en ann­ar hluti greiðslunn­ar er ár­ang­ur­s­tengd­ur til tveggja ára. Þegar hafa 95% hluthafa samþykkt kauptilboðið.

Stærstu eigendur CCP eru í grunninn fjórir. Fyrst er það fjárfestingafélagið Novator og tengdir aðilar, en aðaleigandi Novator er Björgólfur Thor Björgólfsson. Eiga félög tengd Novator samtals 43,42%. Framtakssjóðurinn NEA á 23,11%, General Catalyst er með 21,30% hlut og Hilmar Veigar með 6,51%. Þá eiga aðrir minni hluthafar 5,66% í félaginu.

Novator varð stærsti hluthafi CCP á árunum 2005-6, meðal annars með því að kaupa um 38% hlut fjárfestingafélagsins Brúar Venture Capital hf., sem var dótturfélag Straums-Burðaráss fjárfestingabanka. Kaupverðið var aldrei gefið upp, en ef af sölunni til Pearl Abyss verður munu félög tengd Novator fá 184,5 milljónir Bandaríkjadala í sinn hlut. Nemur það um 20,3 milljörðum króna.

NEA mun fá um 98,2 milljónir Bandaríkjadala fyrir 23,11% hlut sinn, en það nemur um 10,8 milljörðum íslenskra króna í dag. Félagið fjárfesti fyrir 30 milljónir dala í CCP í nóvember árið 2015. Ávöxtun félagsins nemur því sem fyrr segir um 68,2 milljónum dala, eða rétt tæplega 7,5 milljörðum króna.

Björgólfur Thor Björgólfsson er aðaleigandi Novator, en félagið og tengd …
Björgólfur Thor Björgólfsson er aðaleigandi Novator, en félagið og tengd félög fá um 20 milljarða fyrir söluna á CCP. mbl.is/RAX

General Catalyst setti 20 milljón Bandaríkjadali í CCP í ágúst 2012. Með sölunni núna fá þeir um 90,5 milljón dali í sinn hlut og er ávöxtunin því um 70,5 milljónir dala, eða 7,75 milljarðar króna á gengi dagsins í dag.

Hilmar Veigar hefur starfað hjá CCP frá árinu 2000 og þar af stýrt félaginu frá því árið 2004, eða í fjórtán ár. Hann á í dag 6,51% í fyrirtækinu og með sölunni mun hann fá 27,67 milljónir dala í sinn hlut, eða 3,04 milljarða króna.

Aðrir minni hluthafar í CCP eiga 5,66% og fá þeir við söluna 24 milljónir dala, eða jafngildi 2,64 milljarða króna.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, fær um 3 milljarða fyrir …
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, fær um 3 milljarða fyrir sinn hlut í félaginu. Ljósmynd/CCP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK