Anna Björk í framkvæmdastjórn Advania

Anna Björk Bjarnadóttir, nýr framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania.
Anna Björk Bjarnadóttir, nýr framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Ljósmynd/Aðsend

Anna Björk Bjarnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Hún mun stýra sókn félagsins í ráðgjöf til viðskiptavina um stafræna umbreytingu. Samkvæmt tilkynningu frá Advania er þetta hluti af breyttu skipulagi félagsins þar sem aukin áhersla verður sett á ráðgjafarhlutverk til viðskiptavina.

Á nýja sviðinu verða rúmlega hundrað starfsmenn þar sem áherslan verður lögð á ráðgjöf á sviði stafrænnar stefnu ásamt þróun og þjónustu ýmissa sérlausna Advania.

Anna Björk starfaði hjá Símanum í átta ár, þar af fimm í framkvæmdastjórn. Undanfarin ár hefur hún leitt ráðgjafarfyrirtækið Expectus. Anna Björk var áður ráðgjafi hjá Capacent, stýrði þjónustusviði TeleDanmark í Noregi og hefur setið í stjórnum svo sem Viðskiptaráðs, Sensa og Festu.

Í framkvæmdastjórn Advania eru nú þau Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Sigrún Ámundadóttir, Sigurður Sæberg Þorsteinsson, Kristinn Eiríksson og Anna Björk Bjarnadóttir ásamt forstjóranum Ægi Má Þórissyni.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir