Ferðamönnum fækkaði um 2,8% í ágúst

Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamönnum fækkaði um 2,8% í ágúst frá sama mánuði í fyrra, en fækkunin nemur tæplega átta þúsund manns. Þjóðverjum fækkaði mikið, eða um 25,9% í ágúst. Á móti hefur Bandaríkjamönnum fjölgað mikið, eða um 23,8%.

Þegar horft er til sumarsins í heild fjölgaði ferðamönnum um 1,4%, eða um tæplega 11 þúsund manns. Þetta má lesa úr nýjum tölum Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna sem fóru frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll.

Færri frá Evrópu og Kanada en Bandaríkjamönnum fjölgar

Færri brottfarir í ágúst milli ára má einkum rekja til Þjóðverja, Frakka, Kanadamanna og Breta sem fækkaði á bilinu 15-26%. Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir í ágúst í ár og fjölgaði þeim verulega frá árinu áður eða um 23,8%.

Sé litið til nýliðins sumars í heild má sjá mun minni fjölgun í brottförum erlendra farþega en síðustu ár. Þannig var aukning yfir sumarmánuðina nú 1,4% á milli ára samanborið við 17,1% aukningu milli ára 2016-2017, 30,9% milli ára 2015-2016 og 24,4% milli ára 2014-2015.

3,4% fjölgun yfir allt árið

Frá áramótum hafa tæplega 1,6 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 3,4% fjölgun frá sama tímabili í fyrra.

Sem fyrr segir fækkaði erlendum farþegum um 2,8% í ágúst, en til samanburðar fjölgaði þeim um 17,6% milli ára 2016-2017, 27,5% milli ára 2015-216 og 23,4% milli ára 2014-15.

Sé litið til brottfara í ágúst nú hefur orðið tæp tvöföldun frá árinu 2014. Fjölgunin hefur að jafnaði verið 16,4% á milli ára á tímabilinu.

Bandaríkjamenn langfjölmennastir

Þegar litið er til 12 fjölmennustu þjóðernanna má sjá að Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir í ágúst eða þriðjungur farþega. Brottfarir Bandaríkjamanna voru um 92 þúsund talsins í ágúst og fjölgaði um tæp 18 þúsund milli ára eða 23,8%.

Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar og Frakkar með 13,6% hlutdeild en Þjóðverjum fækkaði um 25,9% milli ára og Frökkum um 17,6%. Fækkun var milli ára hjá átta af þeim níu þjóðernum sem fylgdu þar á eftir. Einungis Pólverjum fjölgaði í ágúst milli ára og það um 22,1%.

Mikil fækkun frá Mið-Evrópu, en fjölgun frá Ameríku

Sé breytingin skoðuð nánar má sjá fækkun frá öllum mörkuðum í ár frá því í fyrra nema frá Norður-Ameríku og þeim löndum sem falla undir „annað“. Þannig fækkaði Norðurlandabúum um 18%, Bretum um 12% og Mið- og Suður-Evrópubúum um 16%. 

Þegar kemur að heildarfjölda er mesta fækkunin frá Mið-Evrópu, en þar fækkaði ferðamönnum í ágúst um rúmlega 15.500. Á sama tíma fjölgaði ferðamönnum frá Norður-Ameríku um rúmlega 15 þúsund. Sé horft til sumarsins í heild fækkaði ferðamönnum frá Mið-Evrópu um 34 þúsund og frá Norðurlöndum um 12.500, en fjölgaði frá Norður-Ameríku um rúmlega 55.600 manns.

Þegar er horft er lengra aftur í tímann má sjá í langflestum tilfellum aukningu milli ára, þá einkum frá Norður Ameríku en Norður-Ameríkubúum fjölgaði mest, eða um 54% milli ára 2014-2015 og 65% milli ára 2015-2016. Um er að ræða nærri fjórföldun Ameríkana á tímabilinu.

Lesa má nánar um tölur Ferðamálastofu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK