Vilja Secret Solstice á Klambratún

Frá Secret Solstice.
Frá Secret Solstice. mbl.is/Styrmir Kári

Fjárfestar sem lagt hafa fjármuni til tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice eru ekki tilbúnir að leggja meira fé til rekstursins í núverandi mynd. Þetta kemur fram í bréfi Katrínar Ólafsson, framkvæmdastjóra rekstrarfélags hátíðarinnar, til borgarráðs Reykjavíkurborgar, en tekjurnar af henni síðasta sumar voru verulega undir væntingum, einkum vegna veðurs.

Hátíðin fór fram í fimmta sinn í sumar og segir Katrín í bréfinu að á þeim tíma hafi byggst upp dýrmæt þekking á framkvæmd slíkra hátíða og að vörumerkið Secret Solstice sé orðið alþjóðlega þekkt vörumerki. Efnahagslegt fótspor hátíðarinnar sé 5-7 milljarðar króna á þessum tíma og tugir milljóna hafi farið á hverju ári í að auglýsa hana og Reykjavík.

Rekstur Secret Solstice hafi ekki skilað hagnaði til þessa og fyrir vikið hafi eigendur félagsins þurft að leggja til fé á hverju ári til að halda áfram uppbyggingu hennar. Eigendurnir vonist þó að sjálfsögðu til þess að á endanum eigi sú fjárfesting eftir að skila sér til baka á næstu árum enda metnaður til þess að halda uppbyggingu hátíðarinnar áfram.

Katrín segir mikinn vilja til þess að halda áfram samstarfi Secret Solstice við Reykjavíkurborg en þörf sé hins vegar á að endurmeta ákveðna þætti í samstarfi við borgina. Eitt af því sem vilji sé til að skoða og ræða sé staðsetning hátíðarinnar. Reynst hafi rekstrarlega óhagkvæmt að halda hana í Laugardalnum. Meðal annars vegna viðkvæmra svæða þar.

Myndi henta betur en Laugardalurinn

Spennandi þróun hafi farið af stað á árinu 2017 og töluverðu fjármagni varið í að teikna upp hátíðarsvæði á Klambratúni í nánu samstarfi við starfsmenn borgarinnar. Allar teikningar og skipulag sé tilbúið í þeim efnum. Ekki hafi hins vegar orðið af því að flytja hátíðina þangað vegna framkvæmda á Miklubraut. Það svæði myndi henta betur en Laugardalurinn.

Með því að flytja Secret Solstice á Klambratún væri hægt að spara töluverðan framleiðslukostnað auk þess sem svæðið liggi að miðbæ Reykjavíkur sem tengi hátíðina bent við hann. Vilja aðstandendur hátíðarinnar skoða þann möguleika að halda úti starfsemi allt næsta sumar og halda þannig lífi á svæðinu með ýmiss konar viðburðum.

Dýrt sé að setja hátíð eins og Secret Solstice upp fyrir 3-4 daga og taka hana svo aftur niður. Með slíku samstarfi sparaðist mikill kostnaður og hægt yrði að gera Klambratún að spennandi viðkomustað fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn, bæði með skipulagðri dagskrá og möguleikanum á að setja upp skemmtanir með stuttum fyrirvara.

Mbl.is hafði samband við Friðrik Ólafsson, einn skipuleggjenda Secret Solstice, vegna málsins en hann vildi ekki tjá sig um það að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK