Trump vill að Apple framleiði sínar vörur í Bandaríkjunum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur Apple til að færa framleiðslu ...
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur Apple til að færa framleiðslu sína til Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatti í dag bandaríska tæknifyrirtækið Apple til að frameiða vörur sínar í Bandaríkjunum í staðinn fyrir Kína svo Apple neyðist ekki til að þola afleiðingar viðskiptastríðs hans gegn stjórnvöldum í Peking. 

Trump hefur ítrekað beðið fyrirtækið að færa starfsemi sína til Bandaríkjanna, eða halda sinni starfsemi þar, á sama tíma og hann hefur gripið til umfangsmikilla efnahagsþvingana sem ætlað er að draga úr viðskiptahallanum við Kína, en Trump líkir hallanum við þjófnað úr vasa bandarískra skattgreiðenda. 

AFP

„Það getur farið svo að verð á Apple-vörum hækki vegna þeirra gríðarlegu miklu tolla sem við munum mögulega leggja á Kína  en það er einföld lausn þar sem skatturinn yrði núll, og í raun skattalegur hvati,“ segir Trump. 

„Framleiðið ykkar vörur í Bandaríkjunum í staðinn fyrir Kína. Byrjið á því að reisa nýjar verksmiðjur núna. Spennandi!“ segir forsetinn. 

Fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar að hár launakostnaður í Bandaríkjunum geti dregið úr þeim ávinningi sem Apple gæti notið með því að komast hjá nýjum tollum sem Trump hótar að leggja á vörur framleiddar í Kína. 

Ríkisstjórn Trumps hefur hækkað tolla á kínverskar vörur fyrir 50 milljarða dala og hótað að leggja skatt á allan kínverskan innflutning til Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir