Samruni Haga og Olís samþykktur með skilyrðum

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Haga og Olís með skilyrðum.
Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Haga og Olís með skilyrðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið heimilaði í dag kaup Haga hf. á Olíverzlun Íslands hf. (Olís) og fasteignafélaginu DGV hf. Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Hagar skuldbinda sig til aðgerða til þess að bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

Rannsókn málsins leiddi í ljós að samruninn, án skilyrða, væri til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti. „Nánar tiltekið var það mat eftirlitsins að samruninn myndi styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði, leiða til staðbundinnar röskunar á samkeppni á tilteknum landsvæðum, hafa skaðleg áhrif á heildsölu- og birgðastigi og hafa í för með sér aukin og skaðleg eignatengsl á milli keppinauta á bæði eldsneytis- og dagvörumarkaði,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Kaupsamningar um viðskiptin voru undirritaðir 26. apríl 2017 með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar Haga fyrir aukningu hlutafjár. Fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar var aflétt 13. júlí 2017 og hlutafjáraukning var samþykkt á aðalfundi Haga árið 2018. 

Með sáttinni skuldbinda samrunaaðilar sig til aðgerða sem miða að því að efla og vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum og bregðast við framangreindri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

Selja rekstur og fasteignir nokkurra Olís- og Bónusverslana

Meðal helstu skilyrða fyrir samrunanum eru að samrunaaðilar skuldbinda sig til að bjóða sama verð á dagvöru á Olís stöðvum um land allt og til að selja nýjum endurseljendum eldsneytis, sem eftir því leita, eldsneyti í heildsölu á viðskiptalegum grunni.

Þá skuldbinda samrunaaðilar sig til að selja rekstur og fasteign félagsins í Faxafeni 14, þar sem verslun Bónuss er starfrækt. Samrunaaðilar skuldbinda sig einnig til að selja rekstur og fasteignir Olís þjónustustöðvanna við Háaleitisbraut 12 og Vallargrund 3, verslana Bónuss á Hallveigarstíg 1 og Smiðjuvegi 2, rekstur Olís verslunarinnar í Stykkishólmi, rekstur og aðstöðu ÓB stöðvar við Starengi 2, Kirkjustétt 2-5 og Knarrarvog 2 í Reykjavík.

Samkvæmt sáttinni er Högum óheimilt að framkvæma samrunann fyrr en sölu fyrrgreindra eigna er lokið. Hagar hafa nú þegar undirritað kaupsamninga um allar framangreindar eignir.  Samruninn kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur metið hæfi kaupenda eignanna. Á næstu vikum mun Samkeppniseftirlitið meta hæfi kaupenda, en vonir Haga standa til þess að því hæfismati verði lokið í síðasta lagi um miðjan nóvember, að því er fram kemur í tilkynningu frá Högum.

Í framhaldi af samrunanum verður unnið að því að endurskipuleggja fjármagnsskipan Haga með það að markmiði að hámarka nýtingu eigna og straumlínulaga rekstur. Ráðgjafar kaupanda gera ráð fyrir að samlegðaráhrifin nemi um 600 milljónum króna á ársgrundvelli, sem nemur um 3% af samanlögðum rekstrarkostnaði hinna sameinuðu félaga. Hlutfall nettó vaxtaberandi skulda félaganna á móti EBITDA verður um 2,0. Ráðgjafar kaupanda í viðskiptunum voru Arctica Finance og Landslög.

Meðal helstu skilyrða fyrir samrunanum eru að samrunaaðilar skuldbinda sig …
Meðal helstu skilyrða fyrir samrunanum eru að samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur og fasteignir nokkurra Bónusverslana. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK