Stofnandi Creditinfo með nýtt fyrirtæki

Starfsfólk Svartagaldurs.
Starfsfólk Svartagaldurs.

Reynir Grétarsson, stofnandi og eigandi upplýsingatæknifyrirtækisins Creditinfo Group, er einn af stofnendum tækni- og markaðsfyrirtækisins Svartagaldurs, sem hóf rekstur nú nýlega.

Fyrirtækið sinnir annars vegar hefðbundinni umsjón með efnismarkaðssetningu, leitarvélabestun, umsjón samfélagsmiðla og keyptum auglýsingum á netinu, og hins vegar mun fyrirtækið einbeita sér að þróun tækninýjunga í markaðssetningu á netinu.

„Mig hefur lengi langað að fjárfesta í þessum bransa þar sem tækninni fleygir fljótt fram,“ segir Reynir. „Það eru miklir vaxtarmöguleikar fyrir Svartagaldur bæði hér heima og erlendis. Gögn eru nýja gullið og ég sé vannýtt tækifæri sem Svartigaldur er að fara að vinna með.“

Starfsfólk frá The Engine

Auk Reynis eru stofnendur þeir Guðbjörn „Beggi“ Dan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsfyrirtækisins The Engine, sem auglýsinga- og markaðsfyrirtækið Pipar\TBWA sameinaðist á dögunum, og Þór Matthíasson, fyrrverandi auglýsingastjóri hjá The Engine. Lilja Þorsteinsdóttir, fyrrverandi deildarstjóri efnismarkaðssetningar- og samfélagsmiðladeildar hjá The Engine, er framkvæmdastjóri nýstofnaðs félags.

 „Ég er auðvitað mjög ánægð með nýja fyrirtækið,“ segir Lilja í tilkynningu. „Svartigaldur er á hraðri uppleið eftir einungis rúman mánuð af fullri starfsemi. Eftirspurnin eftir okkar þjónustu er mikil og það er ekki verra að orðspor starfsfólksins er mjög gott og traust fólks á okkur er nú þegar greinilegt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK