Leitar réttar síns vegna uppsagnar

Áslaug Thelma Einarsdóttir segist margoft hafa leitað til starfsmannastjóra ON …
Áslaug Thelma Einarsdóttir segist margoft hafa leitað til starfsmannastjóra ON vegna óviðeigandi framkomu Bjarna Más Júlíussonar sem var rekinn úr stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend


Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem var sagt upp störfum hjá Orku náttúrunnar fyrir viku, ræddi fyrst við starfsmannastjóra félagsins um framkomu Bjarna Más Júlíussonar, þáverandi framkvæmdastjóra ON, fyrir einu og hálfu ári, vegna óviðeigandi framkomu.

Áslaug, sem gegndi stöðu forstöðumanns einstaklingsmarkaðar hjá ON, tengir uppsögn sína við samtöl og tilkynningar hennar til starfsmannastjórans „við þessa fyrirvaralausu og óútskýrðu uppsögn því engar aðrar málefnalegar ástæður virðast liggja að baki henni – hvorki frammistaða mín í starfi né annað,“ segir Áslaug í Facebook-færslu sem hún birti í morgun.

Áslaug Thelma Einarsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Einari Bárðarsyni. Áslaugu var …
Áslaug Thelma Einarsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Einari Bárðarsyni. Áslaugu var sagt upp störfum hjá ON fyrir viku og hyggst hún leita réttar síns vegna málsins. mbl.is/Golli

Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar, birti færslu á Facebook síðastliðinn miðvikudag þar sem hann gagn­rýn­ir for­stjóra í stór­fyr­ir­tæki harðlega, en um er að ræða Bjarna, for­stjóra Orku­veit­unn­ar. Seg­ir Ein­ar að for­stjór­an­um þyki óviðeig­andi hegðun í lagi vegna þess að sá sem hafi sýnt af sér slíka hegðun skilaði svo góðum töl­um í rekstri.

Í kjölfarið var Bjarni Már Júlí­us­son rek­inn úr starfi sem fram­kvæmda­stjóri Orku nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fé­lags Orku­veitu Reykja­vík­ur. For­stjóri Orku­veitu Reykja­vík­ur sagði í sam­tali við mbl.is að eitt óviðeig­andi til­vik hefði leitt til upp­sagn­ar Bjarna Más.

Áslaug segir það vera fráleita staðhæfingu, þar sem maður sem verður uppvís af því að senda einn óviðeigandi tölvupóst ætti sannarlega skilið annað ferli en þann tafarlausa brottrekstur sem stjórn ON ákvað. 

Sakaði undirmann um að vera ekki nógu graðan

Áslaug segir að tilvikin séu miklu fleiri en eitt og að hún hafi fyrst veitt því athygli sex mánuðum eftir að Bjarni tók við starfi framkvæmdastjóra.

„Þetta átti við framkomu hans opinberlega og á fundum með viðskiptavinum og á einkafundum kallaði hann samstarfskonur mínar innan og utan ON nöfnum sem enginn á að nota. Hann sakaði undirmann minn um að vera ekki nógu graða og skipulagða þegar hann reyndi opinberlega og í votta viðurvist að “lækna” hana af því meini að vera einhleypa,“ skrifar Áslaug.

Þá segir hún einnig frá því þegar Bjarni sakaði hana fyrir framan starfsmannastjórann á fundi um það að hafa blikkað hana upp í launum í viðræðum við fyrri framkvæmdastjóra. „Ergo: ég væri ekki launanna minna virði eða hreinlega að ég væri vændiskona. Svona mætti halda endalaust áfram,“ skrifar Áslaug.

Stjórn Orku nátt­úr­unn­ar, sem er dótt­ur­fyr­ir­tæki Orku­veitu Reykja­vík­ur, sagði Bjarna …
Stjórn Orku nátt­úr­unn­ar, sem er dótt­ur­fyr­ir­tæki Orku­veitu Reykja­vík­ur, sagði Bjarna Má Júlí­us­syni upp störf­um sem fram­kvæmda­stjóra fé­lags­ins í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vissu af „galla“ framkvæmdastjórans

Áslaug og Einar óskuðu eftir fundi með forstjóra og starfsmannastjóra OR í kjölfar uppsagnar Áslaugar fyrir viku. Síðastliðinn miðvikudag sátu þau fund með forstjóra OR og lögfræðingi félagsins.

„Á fundinum sagði starfsmannastjórinn að hún hefði tekið öll samtölin okkar „alla leið” eins og hún orðaði það. Þetta er gríðarlega mikilvæg staðfesting sem sýnir að yfirlýsingar forstjóra OR standast enga skoðun þegar hann heldur því fram að hann hafi ekkert vitað um framkomu framkvæmdastjórans og að honum hefði verið „illa brugðið” við bréfið frá mér.“

Á fundinum fékk Áslaug einnig þau svör að forstjórinn og starfsmannastjórinn hefðu bæði hafa vitað af þessum „galla” framkvæmdastjórans eins og þau kölluðu það, en ráðið hann engu að síður og með fyrirvara um að hann ynni í þessum „göllum” og héldu því fram að þau hefðu veitt honum „aðstoð” til að vinna með þetta „vandamál,” eins og Áslaug lýsir í færslu sinni. 

Áslaug segir fundinn hafa verið vonbrigði. „Fundurinn stóð í 40 mínútur og forstjórinn og starfsmannastjórinn sögðu að lokum að þeim þætti þetta allt mjög leiðinlegt. Ég get engan veginn áttað mig á því fyrir hvern þetta var leiðinlegt í þeirra huga og engar skýringar fékk ég á minni uppsögn,“ skrifar Áslaug. Eftir fundinn birti Einar fyrrnefnda Facebook-færslu.

Áslaug segist ekki líta á uppsögn Bjarna sem sigur fyrir hana. „Ég hef enga unun af því að sjá þennan mann missa æruna og framfærslu sína.“ Áslaug segur hann hafa verið ráðinn í verkefni sem hann réð ekki við úr því hann gat ekki sýnt samstarfsfólki eðlilega virðingu.

„Hann var ráðinn af fólki sem á ekki að velja leiðtoga, því eftir þessa reynslu virðist mér ljóst að þau skilja ekki inntak þess að vera leiðtogi á vinnustað eða mikilvægi þess að athafnir séu í samræmi við orð,“ skrifar Áslaug.

Mun sækja rétt sinn af fullum þunga

Frá því Bjarna var sagt upp hefur Áslaug ekki heyrt frá stjórnendum fyrirtækisins. „Hvorki forstjóri OR, mannauðsstjóri OR né stjórnarformaðurinn hafa beðið mig velvirðingar á þessari framkomu gagnvart mér eða boðið mér starfið mitt aftur,“ skrifar Áslaug.

Hún hefur ákveðið að leita réttar síns vegna uppsagnarinnar og mun í dag funda með lögfræðingi. „Ég sé ekki að ON, Orkuveitan eða Reykjavíkurborg sýni nokkra viðleitni til að ræða frekar við mig og því síður að leiðrétta það tjón sem ég hef orðið fyrir - að vera rekin fyrir að gera rétt. Rekin fyrir að reyna að verja mig og samstarfskonur mínar,“ skrifar Áslaug.

Hér má lesa færslu Áslaugar í heild sinni: 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK