Vilja sjá forsendur fyrir lánveitingu

Morgunblaðið/Ernir

Félag atvinnurekenda vill að fjárlaganefnd Alþingis skoði vel ástæður tapreksturs Íslandspósts áður en 500 milljóna lánveiting til félagsins er samþykkt í fjáraukalögum, en tilkynnt var um lánið, með fyrirvara um heimild í fjáraukalögum, á vef Stjórnarráðsins á föstudaginn. Þá benda samtökin jafnframt á að Íslandspóstur hafi undanfarin ár hagnast á einkaréttarþjónustu (bréf undir 50 gr.), en tapað mikið á alþjónustu sem sé rekin á samkeppnismarkaði.

Samkvæmt lögum ber Íslandspósti að sjá um alþjónustu á sendingum, allt að 20 kílóum, um allt land. Þessi rekstur er í samkeppni við einkaaðila. Þá hefur Íslandspóstur einkarétt á dreifingu bréfa upp að 50 grömmum.

Í tilkynningu á vefsíðu Félags atvinnurekenda er meðal annars vísað í úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar frá því fyrr á þessu ári. Þar kemur fram að stofnunin telji að Íslandspósti hafi verið bættur upp að fullu, í gegnum gjaldskrárbreytingar innan einkaréttar, allur sá viðbótarkostnaður sem félagið hafi haft af því að veita alþjónustu, þar með talið dreifingu alla virka daga. „Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum.“

Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, að fjárlaganefnd gefist nú tækifæri á að spyrja Íslandspóst út í fjárfestingar hans í sendibílaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, rekstur ePósts og í prentsmiðjunni Samskiptum. „Það er afskaplega hæpið að Alþingi samþykki hálfs milljarðs króna innspýtingu af fé skattgreiðenda í rekstur Íslandspósts ef tapið er tilkomið vegna rangra ákvarðana stjórnenda fyrirtækisins um fjárfestingar í samkeppnisrekstri,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK