Seðlabankinn á varðbergi vegna stöðunnar

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég myndi nú ekki segja að við værum á mjög hættulegum stað í svona sögulegu samhengi,“ sagði Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun þar sem rætt var um skýrslu peningastefnunefndar.

Tilefnið var fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar, sem dró upp þá mynd af efnahagslífinu að það væri á nokkuð hefðbundnum stað þar sem flökt væri komið í gengið í kjölfar nokkuð mikils gengisstöðugleika og farið að þrengja að útflutningsgreinunum með háu gengi sem haldið væri fyrst og fremst uppi með háu vaxtastigi. Spurði hann hvort Seðlabankinn hefði engar áhyggjur af útflutningsgreininum og enn fremur hvort bankinn hefði engar áhyggjur af mikilli aukningu ríkisútgjalda sem boðuð væri í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

„Auðvitað er það þannig að gengið sveiflast eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni, stundum fer það upp og stundum fer það niður, og þannig á það líka að vera,“ sagði Már í svari sínu. Verðbólguvæntingar væru aðeins komnar upp fyrir verðbólgumarkmið en ekki væru hins vegar ótvíræð merki enn í þeim efnum. Aðallega væri þar um að ræða verðbólguálag á milli óverðtryggðra og verðtryggðra bréfa og það gætu verið ákveðnar tæknilegar ástæður fyrir því. Þetta væri ekki óyggjandi.

Hægt að lækka vexti mjög hratt og mikið

„Það má ekki gleyma því að það er auðvitað alltaf mjög hættulegt að vera á þessum stað ef að kerfið er einhvern veginn ekki undir það búið að takast á við þær sveiflur sem óhjákvæmilega þurfa alltaf að verða. En við erum það nú, við erum með mikið eigið fé í bönkunum, við eigum stóran gjaldeyrisforða. Hvað sem má segja um stöðuna í ríkisfjármálunum [...] þá erum við líka með mikið svigrúm í skuldastöðu ríkissjóðs.“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

Enn fremur væri fyrir hendi mjög mikið svigrúm þegar kæmi að vaxtastiginu enda væri hægt að lækka vexti mjög hratt og mjög mikið ef á þyrfti að halda sem aðrar þjóðir sem væru í og við núllið gætu ekki gert. „Auðvitað hlaut alltaf að koma að því að gengið næði ákveðnum hápunkti þegar það væri búið að vinna sitt verk að ná betra jafnvægi í hagkerfið og svo þegar þróunin færi á annan veg þá myndi það kannski auðvitað eitthvað aðlagast.“

Már ítrekaði að hann gæti ekki tekið undir að hagkerfið væri á mjög hættulegum stað en það gæti engu að síður verið á vissan hátt á hættulegum stað og fyrir vikið væri Seðlabankinn á varðbergi. Hvað útflutningagreinarnar varðar sagði Már ekki rétt að háu gengi krónunnar væri haldið uppi með háu vaxtastigi. Greiningar bankans sýndu að það væri fyrst og fremst viðskiptajöfnuðurinn við útlönd sem væri að stuðla að háu gengi gjaldmiðilsins.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hækkað gengið

„Það er hinn mikli vöxtur ferðaþjónustunnar og bati viðskiptakjaranna sem núna eru að ganga til baka sem keyrðu upp gengið. Við stýrum ekki raungenginu, ekki nema þá til skamms tíma. Og það er auðvitað alltaf hætta á því að slíkir ferlar fari eitthvað fram úr sér. Það þarf ekki að vera einhver fjármálakreppa þegar það leiðréttist en það er alltaf óþægilegt. Og við höfum þess vegna verið mjög vakandi fyrir þeim möguleika að gengið myndi ofrísa.“

Þess vegna hafi Seðlabankinn beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði í hækkunarferlinu og þess vegna væri bankinn með fjárstreymistækið í verkfærakistunni sinni. 

„Við teljum að það væri mjög hættulegt að fá núna eitthvað, þó að það væri ekkert mikið, vaxtamunaviðskiptainnflæði. Jafnvel þó að það sé ekki endilega í spákaupmennskuskyni. Það hefur sömu áhrif á gengið og vextina og búa til stöðu þar sem gengið væri enn hærra en innlendir vextir lægri. Við höfum talið rétt að halda aftur af innlendum þensluöflum en reyna að beina aðhaldinu í eins miklum mæli frá einmitt útflutnings- og samkeppnisgreinunum út af því sem þú ert þarna að segja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir