Segir hækkanir fasteignagjalda ólöglegar

„Reykjavíkurborg leggur hæstu lögleyfðu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í borginni,“ segir …
„Reykjavíkurborg leggur hæstu lögleyfðu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í borginni,“ segir á vefsíðu FA. Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

„Gífurlegar“ hækkanir fasteignagjalda eru ekki aðeins ósanngjarnar heldur einnig ólöglegar þar sem þær eiga að standa undir kostnaði við veitta þjónustu sveitarfélags við fyrirtæki en ekki að vera eignarskattar, að mati Félags atvinnurekenda.

Félagið hefur sent ýmsum stærri sveitarfélögum bréf og hvatt sveitarfélögin til þess að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í fjárhagsáætlunum fyrir komandi ár. Þetta kemur fram á vefsíðu félagsins

Sveitarfélögin bera líka ábyrgð

Félagið bendir á að hækkun fasteignagjalda sé einn þeirra þátta sem valda verðbólguþrýstingi og að lækkun þeirra muni leiða til þess að fyrirtæki neyðist ekki til að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Þá fullyrðir félagið að sveitarfélögin beri ekki síður en ríkið ábyrgð á því að farsæl niðurstaða náist í kjarasamningum í vetur.

Í bréfum til sveitarfélaga á Suðvesturlandi er bent á að á árunum 2014-2019 hækki fasteignamat atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 65,2% og að Reykjavíkurborg hafi í fyrra lækkað álagningarprósentu fasteignagjalda íbúðarhúsnæðis til að mæta hækkunum fasteignamats.

„Einhverra hluta vegna hefur engin ástæða þótt til að sýna eigendum atvinnuhúsnæðis sömu sanngirni. Oft og iðulega er ekkert að gerast í rekstri fyrirtækja sem auðveldar þeim að standa undir þessari stórauknu skattbyrði. Fasteignaskattur er raunar, að mati FA, afar óheppilegur og ósanngjarn skattur sem leggst á eigið fé fyrirtækja óháð afkomu,“ segir í bréfi félagsins til Reykjavíkurborgar.

„Ólöglegar“ hækkanir

Í sama bréfi segir að tekjur borgarinnar af fasteignasköttum fyrirtækja hafi verið 7,6 milljarðar króna árið 2013 en hafi verið komnar í 10,6 milljarða króna árið 2017 og því hækkað um 39,3%.

Félag atvinnurekenda segir þessar hækkanir ekki einungis ósanngjarnar heldur jafnframt ólöglegar, þar sem fasteignagjöld eiga að standa undir kostnaði við veitta þjónustu sveitarfélaga við fyrirtæki en ekki að vera eignarskattar.

 „Félag atvinnurekenda telur að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög beri ekki síður en ríkisvaldið ábyrgð á því að farsæl niðurstaða náist í kjarasamningum í vetur og að fyrirtæki neyðist ekki til að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið,“ segir jafnframt í bréfinu til Reykjavíkurborgar.

Vaxandi verðbólguþrýstingur

„Komið hefur fram í hagspám Seðlabanka Íslands og fleiri opinberra aðila að verðbólguþrýstingur fer nú vaxandi af ýmsum ástæðum. Gífurlegar hækkanir fasteignagjalda eru einn orsakaþáttur. Fyrirtæki sem taka á sig viðlíka þyngingu skattbyrði eiga oft ekki annan kost en að velta kostnaðaraukanum út í verðlag,“ segir á vefsíðu FA.

Þá er þar vísað til markaðspunkta greiningardeildar Arion banka frá júní þar sem bent var á að stóru fasteignafélögin myndu neyðast til að hækka leiguna hjá leigutökum sínum til að mæta hærri fasteignagjöldum.

„Eftir launahækkanir síðastliðinna ára, ásamt því að horfur eru á harðri kjarabaráttu á vinnumarkaði á komandi mánuðum, má velta fyrir sér hversu mikið svigrúm sé til staðar hjá atvinnurekendum til að takast á við hærri leigukostnað. Að okkar mati er það svigrúm lítið og því hætta á að hækkun leiguverðs verði velt áfram og út í almennt verðlag,“ sagði í áliti greiningardeildarinnar. 

Félag atvinnurekenda segir þessa spá hafa gengið eftir að því leyti að leigufélögin hafi virkjað hækkunarákvæði leigusamninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK