Enduropna rannsókn á Danske Bank

Danske Bank.
Danske Bank. AFP

Danska fjármálaeftirlitið hyggst láta rannsaka á ný meint peningaþvætti Danske Bank eftir að fram kom hjá forráðamönnum bankans að „stór hluti“ af færslum að verðmæti 200 milljarðar evra, sem runnu í gegnum útibú bankans í Eistlandi, voru sagðar „grunsamlegar“. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Meint peningaþvætti Danske Bank er eitt stærsta mál sinnar tegundar sem upp hefur komið í Evrópu. Í gær kom fram að bankinn geti ekki hent reiður á hversu stór hluti upphæðarinnar hefði verið peningaþvætti en upphæðirnar streymdu í gegnum útibúið í Eistlandi á milli 2007 og 2015. 

„Við erum að enduropna rannsóknina á bankanum sem við lokuðum í maí,“ sagði Jesper Berg, yfirmaður danska fjármálaeftirlitsins, við sjónvarpsstöðina TV2 í dag, daginn eftir að Thomas Borgen sagði af sér sem bankastjóri bankans.

„Þegar við fáum nýjar upplýsingar kíkjum við á þær og athugum hvort eitthvað fleira þurfi að skoða,“ sagði Berg en danska fjármálaeftirlitið lýsti því yfir í maí síðastliðnum að verulega annmarka hefði verið að finna á starfsemi útibús bankans í Eistlandi í maí síðastliðnum.

Innra eftirlit Danske Bank rannsakaði færslur að verðmæti 200 milljarðar evra sem streymdu í gegnum 15 þúsund viðskiptavini með heimilisfesti utan Eistlands í gegnum útibúið í Eistlandi. Í þeirri rannsókn kom fram að óvíst væri hvaðan peningarnir kæmu en þó væri vitað að 23% væru frá Rússlandi.

„Stór hluti færslanna er grunsamlegur,“ sagði Ole Spiermann, einn þeirra sem rannsakaði bankann.

Í ágúst kom fram að efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar hefði sett af stað rannsókn á hendur Danske Bank vegna meints peningaþvættis, og að stærstur hluti fjárhæðarinnar kæmi líklega frá Rússlandi og löndum sem tilheyrðu Sovétríkjunum.

Thomas Borgen, forstjóri Danske Bank, sagði af sér í gær.
Thomas Borgen, forstjóri Danske Bank, sagði af sér í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK