Háskólarnir gætu styrkt stöðu útlendinga

Þegar leiðrétt er fyrir aðrar breytur virðist menntun við íslenskan …
Þegar leiðrétt er fyrir aðrar breytur virðist menntun við íslenskan háskóla geta haft mikil áhrif á stöðu útlendinga á vinnumarkaði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ný rannsókn bendir til þess að útlendingar sem hafa menntað sig við íslenska háskóla standi mun betur að vígi á vinnumarkaði hér á landi en þeir sem fengu menntun sína erlendis.

„Við fengum íslenska sjálfboðaliða til að setja sig í spor starfsmannastjóra og meta umsækjendur um starf út frá ímynduðum starfsferilsskrám,“ útskýrir dr. Inga Minelgaite, lektor við Háskóla Íslands og einn af höfundum rannsóknarinnar.

Inga Minelgaite.
Inga Minelgaite. mbl.is/RAX

Rannsakendurnir fóru þá leið að skálda starfsferla fyrir pólska umsækjendur. Allar skrárnar voru skrifaðar á lýtalausri íslensku, tekið fram að umsækjandinn hefði gott vald á málinu, og umsækjendurnir allir með grunngráðu á háskólastigi, sumir með gráðu frá íslenskum háskóla og aðrir með gráðu frá Bretlandi,“ útskýrir Inga en sjálfboðaliðarnir áttu að meta hæfi umsækjendanna til að gegna starfi á endurskoðunarsviði.

Auk Ingu stóðu að rannsókninni þau Olga Stangej, Kári Kristinsson og Margrét Sigrún Sigurðardóttir og voru niðurstöður þeirra birtar á dögunum í fræðiritinu Evidence-Based HRM.

Sjálfboðaliðarnir reyndust taka þá umsækjendur sem voru með íslenska háskólamenntun fram yfir hina og segir Inga að það geti átt sér ýmsar skýringar. „Það mætti draga þá ályktun af niðurstöðunum að fólk líti svo á að ef umsækjandi hefur menntað sig á Íslandi þá sé það til marks um að hann hafi aðlagast samfélaginu betur og eigi auðveldara með að falla í hópinn á íslenskum vinnustað,“ útskýrir hún. „Jafnvel ef tveir umsækjendur eru með jafngóða menntun, og tala jafngóða íslensku, virðist sem gráða frá íslenskum háskóla sendi vinnuveitanda ákveðið merki.“

Veljum það sem er kunnuglegt

Að sögn Ingu er ekki hægt að segja að val sjálfboðaliðanna lýsi fordómum. „En íslenska fjölmenningarsamfélagið er ungt og það er mannlegt eðli að hallast frekar að því sem okkur virðist kunnuglegra. Sjálf er ég frá Litháen og ef ég væri í mannaráðningum myndi manneskja með menntun frá Litháen líklega fá meiri athygli hjá mér en manneskja með menntun frá erlendum skóla sem ég þekki ekki.“

Inga segir eðlilegt að hafa af því áhyggjur að svo virðist sem útlendingar sem starfa á Íslandi eigi oft í erfiðleikum með að fá vinnu í samræmi við hæfni þeirra og menntun. „Niðurstöður rannsóknarinnar veita okkur vísbendingar um að þessi góði hópur fólks gæti styrkt stöðu sína með því að bæta við sig menntun við einhvern af íslensku háskólunum.“

Bendir Inga á að háskólasamfélagið þurfi skoða hvernig megi bregðast við þessu: „Ef til vill er til mikils að vinna ef hægt er að auka framboðið af menntun sem fellur vel að þörfum útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Leiða má líkum að því að háskólarnir geti leikið lykilhlutverk í að auðvelda innflytjendum að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra og stuðla að því að atvinnulífið nýti hæfni þeirra sem skyldi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK