Bankarnir greiða 30 milljarða í opinber gjöld

Heildargjöld lögaðila árið 2018 eru 186,8 milljarðar.
Heildargjöld lögaðila árið 2018 eru 186,8 milljarðar. mbl.is/Golli

Viðskiptabankarnir þrír greiða samtals 30,1 milljarð króna í opinber gjöld árið 2018. Nemur það rúmlega 16% af heildargreiðslu opinberra gjalda sem innheimt eru af lögaðilum á árinu. Þetta er meðal þess sem lesa má úr tölum ríkisskattstjóra yfir álagningu opinberra gjalda og lista yfir 40 hæstu gjaldendur.

Ríkissjóður greiðir hæstu opinberu gjöldin, eða 12,16 milljarða. Landsbankinn kemur þar á eftir með 11,57 milljarða og Arion banki þar næstur með 9,4 milljarða. Íslandsbanki greiðir 9,1 milljarð í opinber gjöld.

Nokkuð er í næsta sæti listans, það fimmta, en í því sæti er Reykjavíkurborg með 3,7 milljarða í opinber gjöld. Þá greiðir Isavia 1,7 milljarða og Landsvirkjun 1,68 milljarða.

Af fyrirtækjum sem ekki eru í ríkiseigu eða viðskiptabankar greiðir Norðurál hæstu opinberu gjöldin. Greiðir fyrirtækið 1,67 milljarða. Icelandair greiðir litlu minna, eða 1,59 milljarða, og Bláa lónið 1,12 milljarða.

Kópavogsbær greiðir 951 milljón í opinber gjöld, Akureyrarkaupstaður 827 milljónir og Hafnarfjörður 763 milljónir.

Af öðrum stærri fyrirtækjum má nefna að Síldarvinnslan greiðir 718 milljónir, N1 711 milljónir og Samherji 674 milljónir. Wow air greiðir á árinu 544 milljónir og sjóðstýringarfélagið Stefnir greiðir 501 milljón. Northern Lights Leasing ehf. greiðir 490 milljónir, en félagið er eignarhaldsfélag um flugflota Atlanta air.

Samtals var fjöldi lögaðila á skattgrunnskrá á landinu öllu 61.027. Þar af voru skattskyld félög 44.102, en félög sem eru undanþegin tekjuskatti voru 16.925. Fyrir lok álagningar höfðu 35.960 skattframtöl borist eða 81,54% þeirra. Í fyrra höfðu 81,83% framtala borist fyrir lok álagningar. Gjöld 8.561 lögaðila voru áætluð sem er 19,41% lögaðila á skattgrunnskrá. Fyrir ári voru gjöld 21,13% lögaðila á skattgrunnskrá áætluð.

Alls voru 186,8 milljarðar lagðir á lögaðila í opinber gjöld sem var 752 milljónum eða 0,4% meira en lagt var á í fyrra. Í heild var endurgreiddur 2,1 milljarður til nýsköpunarfyrirtækja í skattfrádrátt vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar sem var 16,7 milljónum meira en var endurgreitt í fyrra. Auk þess gekk 624,5 milljóna skattfrádráttur til nýsköpunarfyrirtækja upp í álagðan tekjuskatt þeirra.

Tryggingagjald: 93.346.015.870 (6,7%)

Tekjuskattur: 74.911.802.270 (-6,9%)

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki: 9.445.525.602 (8,0%)

Sérstakur fjársýsluskattur: 3.646.534.117 (0,4%)

Fjársýsluskattur: 3.204.379.707 (8,4%)

Fjármagnstekjuskattur: 1.533.288.442 -(18,6%)

Útvarpsgjald: 694.944.000 (5,4%)

Jöfnunargjald alþjónustu: 46.578.132 (-0,9%)

Samtals: 186.829.068.141 (0,4%)

Skattfrádráttur vegna rannsóknarkostnaðar: 2.748.620.054 (0,8%)

Sjá má heildarlista yfir þá 40 lögaðila sem eru hæstu greiðendur opinberra gjalda í meðfylgjandi skjali.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK