Gagnrýna Vinnumálastofnun vegna Primera

Primera Air.
Primera Air. Ljósmynd/Af vef Primera Air

Miðstjórn ASÍ harmar  að Vinnumálastofnun hafi, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur Flugfreyjufélags Íslands og ASÍ, látið hjá líða að nota þau lagalegu úrræði sem stofnunin hefur til þess að stöðva ólöglega starfsemi Primera Air Nordic hér landi. Starfsemin hafi nú stöðvast vegna greiðsluþrots félagsins.

Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ um starfsemi Primera Air Nordic.

Þar segir, að Flugfreyjufélag Íslands og Alþýðusamband Íslands hafi undanfarin ár leitast við að stöðva ólöglega starfsemi Primera Air Nordic og félagsleg undirboð þess á íslenskum vinnumarkaði. Þegar starfsemi félagsins stöðvast nú vegna greiðsluþrots liggi fyrir boðun ótímabundinnar vinnustöðvunar frá og með 15. nóvember nk.

„Miðstjórn ASÍ harmar  að Vinnumálastofnun hafi, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur FFÍ og ASÍ, látið hjá líða að nota þau lagalegu úrræði sem stofnunin hefur til þess að stöðva ólöglega starfsemi Primera Air Nordic hér landi. Af þeim ástæðum eru nú áhafnir þeirra flugvéla sem gerðar hafa verið út frá Íslandi strandaglópar erlendis, fólk sem greidd hafa verið smánarlaun og sem ranglega hefur verið skráð sem verktakar. Til viðbótar er fjöldi Íslendinga nú strandaglópar erlendis vegna gjaldþrotsins.

Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að sjá til þess að Vinnumálastofnun sinni því eftirlitshlutverki sem stofnuninni er ætlað á íslenskum vinnumarkaði m.a. til þess að koma í veg fyrir brotastarfsemi erlendra fyrirtækja og aðför þeirra að íslenskum vinnumarkað,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK