69% fasteignalána verðtryggð

Fjöldi heimila á leigumarkaði hér á landi samsvarar fjölda allra …
Fjöldi heimila á leigumarkaði hér á landi samsvarar fjölda allra íbúða í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði samanlagt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heimili landsins hafa á undanförnum árum tekið verðtryggð íbúðalán í meiri mæli en óverðtryggð. Í fyrra voru 31% allra nýrra íbúðalána óverðtryggð og 69% verðtryggð.

Á undanförnum fimm árum hafa óverðtryggð lán aldrei náð því að vera meira en helmingur nýrra íbúðalána innan mánaðar. Þrátt fyrir þetta hefur útistandandi fjárhæð óverðtryggðra íbúðalána vaxið meira en verðtryggðra lána undanfarin fimm ár enda hafa verið meiri uppgreiðslur á verðtryggðum íbúðalánum en óverðtryggðum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Um miðjan september hófu vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum að hækka hjá nokkrum lánastofnunum. Um er að ræða víðtækustu vaxtahækkanir óverðtryggðra lána, innan mánaðar, síðan árið 2015. Tilkynntar vaxtahækkanir voru á bilinu 0,1-0,4 prósentustig. Hæstu og lægstu vextir óverðtryggðra íbúðalána á markaðnum í heild hafa þó ekki breyst síðan í nóvember 2017.

Um 30 þúsund heimili á leigumarkaði

Ætla má að um miðbik ársins hafi verið á bilinu 28.500-31.000 heimili á leigumarkaði á landinu öllu samkvæmt nýju mati leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs. Fjöldi heimila á leigumarkaði hér á landi samsvarar fjölda allra íbúða í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði samanlagt, segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Í nýlegri könnun leigumarkaðsdeildar var spurt hversu margir einstaklingar væru á sérhverju heimili eftir búsetuformum.

Í ljós kom að meðal þeirra sem búa í eigin húsnæði eru að meðaltali 2,96 íbúar á hverju heimili og á leigumarkaði samanstanda heimilin að meðaltali af 2,38 einstaklingum. Heimili á leigumarkaði telja því að meðaltali færri einstaklinga en heimili þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Könnunin náði til einstaklinga 18 ára og eldri. Samkvæmt niðurstöðunum búa rúm 70% landsmanna í eigin húsnæði, tæp 16% eru á leigumarkaði, 11% búa í foreldrahúsum og 3,5% svöruðu „annað“. Ef einungis er horft til hlutfallsskiptingar landsmanna í eigið húsnæði og leiguhúsnæði má gera ráð fyrir því að 82% séu í eigin húsnæði og 18% á leigumarkaði.

Í þessari greiningu er gengið út frá því að allir einstaklingar yngri en 18 ára búi í foreldrahúsum auk 11% þeirra sem eru eldri en 18 ára. Þeim sem búa í foreldrahúsum er svo skipt upp í eignarhúsnæði og leigumarkað út frá þeirri hlutfallsskiptingu sem fyrr segir.

Við upphaf árs 2018 bjuggu 348.450 manns á landinu öllu samkvæmt tölum Hagstofunnar og samkvæmt ofangreindri hlutfallskiptingu landsmanna upp í búsetuform út frá aldri má gera ráð fyrir því að fjöldi heimila á leigumarkaði hafi verið hátt í 27.000.

Á fyrri helmingi ársins 2018 fluttu svo um 3.500 erlendir ríkisborgarar til landsins samkvæmt tölum frá Hagstofunni og ef gert er ráð fyrir því til einföldunar að þeir fari allir á leigumarkað og séu 2,38 í hverju heimili mætti gera ráð fyrir um 1.500 heimilum til viðbótar á leigumarkaði. Samkvæmt þessu mætti gera ráð fyrir því að hátt í 28.500 heimili séu á leigumarkaði í dag.

Ef þessar tölur eru settar í samhengi við önnur opinber gögn má gera ráð fyrir því að heimili á leigumarkaði séu jafnvel enn fleiri. Samkvæmt lífskjarakönnun Hagstofunnar voru heimilin í landinu 132.600 talsins árið 2016 en nýrri tölur hafa ekki verið gefnar út.

Hjá Eurostat má svo sjá bráðabirgðatölur fyrir árið 2016 um hlutfallsskiptingu heimila í mismunandi búsetuform hér á landi og samkvæmt þeim voru 21,3% heimila á leigumarkaði árið 2016.

Ef reiknað er með 21,3% á leigumarkaði af 132.600 heimilum má gera ráð fyrir því að leigumarkaðurinn hafi talið rúmlega 28.200 heimili fyrir tveimur árum síðan. Á árinu 2016 fjölgaði svo landsmönnum hér á landi um tæp 6.000 og um rúm 10.000 á árinu 2017.

Ef gert er ráð fyrir sömu hlutfallsskiptingu á leigumarkað og í eigið húsnæði og niðurstöður könnunar Zenter og leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs sýna, má gera ráð fyrir því að heimilum á leigumarkaði hafi fjölgað um 1.200 á undanförnum tveimur árum.

Við upphaf árs 2018 hefðu heimili á leigumarkaði því getað verið um 29.500 miðað við þessar forsendur. Ef síðan er tekið tillit til aðflutnings erlendra ríkisborgara til landsins á fyrri helmingi ársins 2018 og gert ráð fyrir því að allir þeir sem fluttu til landsins á árinu séu í leiguhúsnæði gæti fjöldi heimila á leigumarkaði hafa verið um 31.000. Það er því mat leigumarkaðsdeildar að heimili á leigumarkaði hafi að öllum líkindum verið á bilinu 28.500-31.000 talsins um miðbik þessa árs.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK