Viðskiptavinir vilja fyrirsjáanleika

Áfram verður þörf fyrir lögfræðinga en hlutverkið gæti breyst.
Áfram verður þörf fyrir lögfræðinga en hlutverkið gæti breyst. mbl.is/​Hari

Lögmannsstofan LEX í Borgartúni vinnur að þeirri nýjung að bjóða viðskiptavinum sínum fast verð í mörgum flokkum af þeim verkefnum sem þar er sinnt. Hluti af fyrirkomulaginu fólst í því að senda alla lögmenn stofunnar á námskeið í verkefnastjórnun, til að þeir geti betur áttað sig á umfangi verkefna sem unnin eru. 40 lögmenn starfa á LEX, sem er ein stærsta lögmannsstofa landsins.

Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri LEX, segir í samtali við Morgunblaðið að svipaðir hlutir séu að gerast víða. „Við erum nú þegar byrjuð á þessu fyrirkomulagi, en þetta mun svo þróast með tímanum. Þetta er að gerast um allan heim, enda hefur lengi verið þrýst á lögfræðistofur að lækka þóknanir sínar,“ segir Örn.

Örn Gunnarsson hjá Lex.
Örn Gunnarsson hjá Lex. mbl.is/​Hari

Hann segir að viðskiptavinir vilji meiri fyrirsjáanleika í verði. „Þessi hugmyndafræði er í þróun hjá okkur, og við munum taka stór skref hvað þetta varðar næstu 12-18 mánuðina.“

Ábati verður til fyrir alla

Örn segir að augljóslega sé stofan ekki að þessu til að tapa peningum, en hann telur að með innleiðingu verkefnastjórnunar sem tóls í daglegum rekstri aukist skilvirkni fyrirtækisins og ábati verði til sem skiptist á milli viðskiptavina, starfsfólks og fyrirtækisins sjálfs. Meðal annars segir Örn að mögulega geti starfsfólk unnið styttri vinnudag en fengið sama kaup, eða unnið jafn langan vinnudag og áður, en fengið meira kaup. „Ef við viljum fá besta fólkið til starfa verðum við að bjóða því upp á gott umhverfi sem fólki líður vel í.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir