Fyrsta ár H&M „algjörlega frábært“

Dirk Roennefahrt, framkvæmdastjóri H&M á Íslandi og Noregi.
Dirk Roennefahrt, framkvæmdastjóri H&M á Íslandi og Noregi. mbl.is/​Hari

Í dag var þriðja verslun fatakeðjunnar H&M opnuð hér á landi. Jafnframt er um að ræða fyrstu H&M verslunina hér á landi sem selur húsbúnað og þá er verslunin sú fyrsta sem opnar á nýju Hafnartorgi, en þar hefur mikil uppbygging verið í gangi undanfarið sem nú sér fyrir endann á.

Dirk Roennefahrt tók fyrir tveimur mánuðum við sem framkvæmdastjóri H&M á Íslandi og Noregi og er þetta því fyrsta verslun keðjunnar sem opnuð er hér undir hans stjórn. mbl.is ræddi við hann um viðtökurnar hingað til og hvað er framundan.

„Við erum mjög mjög ánægð með árangur fyrsta ársins“

Roennefahrt segir að þriðja verslunin sé mikilvægur áfangi svo keðjan geti haldið áfram með „velgengnissögu sína“ hér á landi. „Síðasta ár hefur verið algjörlega frábært og við höfum fengið mjög góðar viðtökur hér,“ segir hann.

Fyrsta verslunin var opnuð í Smáralind í lok ágúst í fyrra og verslunin í Kringlunni mánuði síðar. Samkvæmt uppgjöri H&M var salan frá september í fyrra til nóvember um 965 milljónir.  Hún dróst svo saman og var orðin 670 milljónir á fyrsta árshluta, sem nær frá mars til maí, en  Á öðrum ársfjórðungi, sem nær frá júní til ágúst, var salan svo komin upp í 780 milljónir króna.

Starfsfólk H&M bauð fyrstu viðskiptavinina velkomna.
Starfsfólk H&M bauð fyrstu viðskiptavinina velkomna. mbl.is/​Hari

„Við erum mjög mjög ánægð með árangur fyrsta ársins,“ segir Roennefahrt. Hann vill þó ekki segja til um hvort verið sé að skoða opnun fleiri verslana á komandi misserum. „Íslenski markaðurinn er mjög spennandi, en við einbeitum okkur nú að þessum þremur búðum segir hann.“

Ekkert enn ákveðið með fleiri verslanir

Forstjóri H&M á heimsvísu, Karl-Joh­an Pers­son, sagði í samtali við mbl.is að til skoðunar væri að opna fleiri verslanir, jafnvel undir öðrum merkjum keðjunnar eins og Ot­her stories, Cos, Monki og Arket. Roennefahrt segir að ekkert slíkt hafi þó enn verið ákveðið.

Sem fyrr segir selur H&M nú húsbúnað, en það er gert undir merkjum H&M home. Roennefahrt staðfestir jafnframt að þau muni hefja sölu á húsbúnaði í Smáralindinni í desember. Hann segir að með þessari viðbót verði hægt að finna vörur fyrir öll herbergi heimilisins.

H&M með um 30% af verslunarrými Hafnartorgs

Undanfarin ár, samhliða fjölgun ferðamanna, hafa svokallaðar ferðamannabúðir sprottið upp víða í miðborginni og hefur það oft verið á kostnað hefðbundnari búða. Aðspurður hvort verslunin muni horfa frekar til ferðamanna heldur en Íslendinga segist Roennefahrt ekki geta svarað því öðruvísi en að allir séu velkomnir. Segir hann að það sé mjög spennandi skref að opna verslun á Hafnartorgi og taka þátt í því uppbyggingarverkefni sem þar hefur átt sér stað.

Þó nokkur röð hafði myndast fyrir utan.
Þó nokkur röð hafði myndast fyrir utan. mbl.is/​Hari

Ljóst er að nokkur spenna var með opnun verslunarinnar, en um 100 manns biðu eftir opnun búðarinnar á hádegi í dag og streymdu inn þegar dyrnar opnuðust. Verslunin er í 2.400 fermetra rými á tveimur hæðum, en það er um 30% af verslunarhúsnæði á Höfðatorgi og 10% af heildarflatarmáli allra bygginga á reitnum. Samtals eru þar sjö byggingar og verður þar 8.000 fermetra þjónustu- og verslunarrými, 6.400 fermetra skrifstofurými, 76 íbúðir og bílastæði sem eru neðanjarðar og tengjast Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK