„Og með því breytti hann heiminum“

Paul Allen er látinn, 65 ára að aldri.
Paul Allen er látinn, 65 ára að aldri. Af Wikipedia

„Ég er miður mín yfir dauða eins elsta og besta vinar míns. Einkatölvur hefðu ekki orðið til án hans.“ Þetta segir Bill Gates um Paul Allen sem lést í gær, 65 ára að aldri. Allen greindi frá því fyrir um tveimur vikum að krabbamein sem hann glímdi við fyrir tæpum áratug hefði tekið sig upp að nýju. 

Saman stofnuðu þeir Gates og Allen tölvufyrirtækið Microsoft árið 1975.

 „Frá því að við kynntumst fyrst í Lakeside-skólanum, í gegnum samstarf okkar og stofnun Microsoft til sameiginlegra mannúðarverkefna okkar í gegnum árin hefur Paul verið sannur félagi og vinur,“ segir Gates jafnframt.

Samband þeirra Allen og Gates hefur ekki alltaf verið gott í gegnum tíðina. Þannig rifjar BBC  upp að þeir deildu nokkuð harkalega um hlutabréf í Microsoft á sínum tíma. En þeir áttu þó margt sameiginlegt síðustu ár, m.a. það að hafa látið milljarða af hendi rakna til margvíslegra góðgerðarmála.

Paul Allen (t.v.) og Bill Gates saman á körfuboltaleik árið …
Paul Allen (t.v.) og Bill Gates saman á körfuboltaleik árið 2000. AFP

Síðustu árin hefur Allen m.a. verið þekktur fyrir að vera eigandi ameríska fótboltaliðsins Seattle Seahawks og körfuboltaliðið Portland Trail Blazers. Þá átti hann einnig hlut í fótboltaliðinu Seattle Sounders sem og í mörgum fyrirtækjum og góðgerðarsamtökum.

Allen var einn ríkasti maður heims. Hann stofnaði Stratolaunch Systems sem byggði stærstu flugvél heims sem er hönnuð til að flytja flaugar út í geim í verkefni sem kallað hefur verið „framtíð geimferðalaga“. Vélin hefur þegar verið sýnd en fyrsta skotið er ráðgert á næsta ári.

Allen fékk eitlakrabbamein fyrir tæpum áratug og tókst að ná góðum tökum á því. Það er hins vegar ólæknanlegt og tók sig upp að nýju fyrir skömmu.

Hann kvæntist aldrei og átti engin börn.

Allen og Gates gengu í sama framhaldskólann í Seattle og þar hófst vinátta þeirra. Allen hóf svo að vinna sem forritari og sannfærði vin sinn Gates um að hætta í Harvard-háskóla og stofna Microsoft sem varð verðmætasta fyrirtæki heims á tíunda áratug síðustu aldar.

 „Hann var gjarn á að segja: „Ef þetta gerir mögulega gagn þá ættum við að gera þetta“. Þannig manneskja var hann,“ segir Gates um Allen.

Allen fór frá Microsoft árið 1983 vegna heilsubrests en hélt hlutum sínum í fyrirtækinu sem urðu síðar stór hluti auðæfa hans. 

„Við öll sem vorum þess heiðurs aðnjótandi að vinna með Paul höfum misst mikið,“ sagði í yfirlýsingu frá Vulcan, fjárfestingafélaginu sem hélt utan um starfsemi Allens. „Hann var óvenjulega greindur og hafði ástríðu fyrir því að leysa sum af flóknustu vandamálum heimsins með þá vissu að vopni að sköpunargáfan og nýjar aðferðir gætu haft mikil áhrif til framtíðar.“

Paul Allen hafði mikinn áhuga á geimferðum.
Paul Allen hafði mikinn áhuga á geimferðum. AFP

Microsoft segir að aðkoma Allens að stofnun fyrirtækisins hafi skipt sköpum fyrir tölvugeirann. 

„Sem stofnandi Microsoft, með hæglæti sínu og þrautseigju, bjó hann til töfrandi vörur, upplifun og stofnanir. Og með því breytti hann heiminum,“ segir í yfirlýsingu forstjóra Microsoft, Satya Nadella.

Gates gekk í Harvard-háskóla en Allen lagði stund á nám við háskólann í Washington og lagði ætíð áherslu á verkefni í heimabæ sínum, Seattle. Hann lagði til að mynda mikla fjármuni í stofnun Allen-stofnunarinnar í heilarannsóknum árið 2003.

Áratug síðar stofnaði hann Allen-stofnunina í gervigreind til að rannsaka áhrif nýrrar tækni á samfélagið og einnig Allen-stofnunina í frumufræðum sem fjármagnaði rannsóknir á meðferð við sjúkdómum.

Árið 1988 keypti Allen körfuboltaliðið Trail Blazers og náði það þeim árangri að komast tvisvar sinnum í úrslit í NBA-deildinni. Hann kom Seattle líka á kortið í ameríska fótboltanum. 

 Allen sinnti margvíslegum góðgerðarmálum. Hann barðist m.a. gegn veiðiþjófnaði í Afríku, gaf fé til rannsókna á loftslagi og studdi við umbótaverkefni fyrir heimilislausa. Þá lagði hann einnig sitt af mörkum til lista og menningar.

Paul Allen opnaði tónlistarsetur í Seattle með táknrænum hætti og …
Paul Allen opnaði tónlistarsetur í Seattle með táknrænum hætti og braut gítar. AFP

Leikarinn og umhverfisverndarsinninn Leonardo DiCaprio segir Allen hafa verið mikilvægan baráttumann fyrir verndun náttúrunnar.

Jeff Bezos, eigandi Amazon, Blue Origin og Washington Post segir að Allen hafi haft átst´riðu fyrir uppfinningum og hafi verið mörgum innblástur. 

Allen hafði ánægju af því að spila á gítar og gerði það allt frá unglingsárum. Hann hljóðritaði blús/rokk-plötu með hljómsveit sinni Unterthinkers árið 2013 sem fékk góða dóma í Rolling Stone. 

Í æviminningum sínum, sem hann gaf út árið 2011, lýsti Allen sambandi sínu við Gates sem var á köflum stormasamt á fyrstu árum Microsoft.

Allen saðist hafa búist við helmingaskiptum í hinu nýja fyrirtæki en að Gates hafi síðar krafist 60% hlutar og seinna 64%. Skrifaði Allen að Gates hafi ætlað að hlunnfara sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK