„Pláss er orðið lúxusvara“

Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma.
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma.

Á síðustu öld fór hlutfall Íslendinga sem bjuggu í þéttbýli úr 10% upp í 90%. Þetta er svipuð þróun og í löndunum í kringum okkur, fólki í þéttbýli fjölgar og það er fleira fólk um hvern fermetra. „Pláss er orðið lúxusvara,“ sagði Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá GAMMA, en hann flutti erindi í dag á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um fasteignamarkaðinn.

Sagði Sölvi að frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hafi lífskjör hverrar kynslóðar batnað um helming og samhliða því væru meiri kröfur t.d. um staðsetningu þeirra íbúða sem keyptar væru. Þetta ætti sinn þátt í að ýta undir hækkandi fasteignaverð undanfarin ár.

Ekki innistæðulaus hækkun

Hins vegar sagði Sölvi að hann sæi ekki að hækkunin væri innistæðulaus eða að um fasteignabólu væri að ræða. „Það væri frekar að tala um leiðréttingu á fasteignaniðursveiflunni árin 2008-9,“ sagði Sölvi. Þá lækkaði fasteignaverð um 40% að raunvirði.

Þá bendir hann á að þótt fasteignaverð hafi hækkað um 60% á raunvirði frá árinu 2010, þá hafi þjóðarútgjöld farið upp um 40% og kaupmáttur launa aukist um 39%. Það væri því ákveðin fylgni milli þessara breytinga og fasteignaverðs, sem ekki hafi verið rétt fyrir fjármálahrunið 2008.

Misvísandi merki á ferðinni á fasteignamarkaði

Sölvi sagði misvísandi merki á ferðinni á fasteignamarkaði í dag. Það hafi klárlega dregið úr hækkunarhraðanum, en að hann gæti áfram sagt með vissu að það væri íbúðaskortur fyrir ákveðna tegund kaupenda. Það væri hægt að segja að leiðréttingin væri að baki, en það sem er fram undan muni ráðast af því hvernig framboðinu reiði af.

Sölvi sagði að GAMMA hefði líkt og Samtök iðnaðarins einnig sent fólk út að telja íbúðir í byggingu og að þeir hafi gert spá um fjölgun fullbúinna íbúða. Sagði hann spá fyrirtækisins talsvert íhaldssamari en hjá samtökunum. Þannig gerði GAMMA ráð fyrir um 1.500 fullbúnum íbúðum á markað á þessu ári, en samkvæmt spá samtakanna verður fjöldinn um 2.000. Þá sagði hann að spár hingað til hafi venjulega ofspáð nýjum eignum.

Reykjavík ekki dýr í samanburði við aðrar höfuðborgir

Hann sagði GAMMA þó ekki svartsýnt með framhaldið. „Ég tel talsvert magn flæða inn á markað 2019, en með fyrirvara um að spárnar eru venjulega ofspár,“ sagði Sölvi. Þá sagði hann það reynslu GAMMA og fjölda byggingarfyrirtækja að hægt gengi að fá mál í gegn hjá skipulagsyfirvöldum, sérstaklega í Reykjavík.

Að lokum vísaði Sölvi til þess að ef miðað væri við verðbreytingar á fasteignamarkaði í Reykjavík miðað við höfuðborgir annarra Norðurlanda undanfarin ár þá væri Reykjavík ekki dýr. Þá væri fasteignamarkaðurinn hér heima mun betur í stakk búinn til að takast á við möguleg áföll ef þau kæmu, meðal annars þar sem skuldir heimila hafa lækkað sem og veðsetningarhlutfall. „En það bólar ekkert á bólunni,“ sagði Sölvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK