Flestir mæla með Fjarðarkaupum

Verslun Fjarðarkaupa í Hafnarfirði er líklegust til að fá meðmæli ...
Verslun Fjarðarkaupa í Hafnarfirði er líklegust til að fá meðmæli viðskiptavina. mbl.is/Rósa Braga

Viðskiptavinir Fjarðarkaupa eru líklegri til þess að mæla með þjónustu Fjarðarkaupa en viðskiptavinir annarra fyrirtækja á Íslandi samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunnar MMR á meðmælavísitölu 85 þjónustufyrirtækja á einstaklingsmarkaði.

Netflix fylgdi á eftir Fjarðarkaupum og eru viðskiptavinir efnisveitunnar næstlíklegastir til að mæla með þjónustunni. Heldur hefur dregið úr því að viðskiptavinir Costco mæli með fyrirtækinu, sem situr í sjöunda sæti meðmælavísitölulista MMR, sem byggir á mælingum á því hversu líklegir einstaklingar eru til mæla með eða hallmæla fyrirtækjum sem þeir hafa átt viðskipti við.

Í tilkynningu MMR vegna niðurstaðnanna segir að meðmæli séu stór áhrifaþáttur í ákvarðanatöku neytenda um hvort stofna eigi til viðskiptasambands við fyrirtæki, og því gefi niðurstöður mælinganna góða tilfinningu fyrir stöðu fyrirtækja á íslenskum markaði.

Toyota, Ikea og Nova héldu áfram að bera af í sínum atvinnugreinum, en fyrirtækin hafa verið fastagestir á lista tíu efstu fyrirtækja landsins frá því að mælingar hófust 2014. Önnur fyrirtæki á topp tíu listanum voru Tékkland, Tix.is, Heimkaup og Miði.is.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir