Lögbannskröfu á Tekjur.is hafnað

Ingvar Smári hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum.
Ingvar Smári hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum. mbl.is/Golli

Lögbannskröfu Ingvars Smára Birgissonar á vefinn Tekjur.is var hafnað af sýslumanni. Í synjunarbréfi sýslumanns, sem mbl.is hefur undir höndum, er fallist á að  brotið sé gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Sýslumaður telur þó ekki að sýnt hafi verið fram á að hagsmunir hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi tjóni, verði hann knúinn til að bíða dóms.

Þá segir að athöfn gerðarþola sé þegar til skoðunar hjá viðeigandi stjórnvaldi, Persónuvernd, og telur sýslumaður ekki tækt að beita lögbanni þegar almennt úrræði er tiltækt.

Hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum

„Ég fagna því að sýslumaður taki undir með mér og telji að verið sé að brjóta gegn réttindum Íslendinga með því að birta laun þeirra á Tekjur.is,“ segir Ingvar Smári í samtali við mbl.is. Hann segir þó ákveðin vonbrigði að sýslumaður líti svo á að hann og aðrir Íslendingar verði ekki fyrir teljandi tjóni af því að bíða eftir dómi, enda sé friðhelgi einkalífsins undir.

 „Þá lýsi ég sérstaklega yfir vonbrigðum með að sýslumaður varpi ábyrgð í málinu yfir á Persónuvernd í stað þess að beita lögbanni. Boltinn er því hjá Persónuvernd eins og staðan er í dag.“

Ingvar Smári hyggst fara með málið fyrir dómstóla og leita réttar síns þar. „Ég geri staðfastlega ráð fyrir því að ég muni leita réttar míns fyrir dómstólum í þessu máli, enda væri glapræði að gera annað þegar sýslumaður hafnar lögbannsbeiðninni með vísun til þess að það sé ekki teljandi tjón, en taki hins vegar undir með því að brotið sé á rétti mínum.“

„Það er komin upp skrýtin staða þar sem sýslumaður og aðrir telja að brotið sé á rétti landsmanna, en ekkert er gert í því,“ segir Ingvar Smári.

„Það er ljóst að með hverri mínútu sem vefurinn er uppi eykst tjón allra sem eru vefnum, vegna þess að á sama tíma og upplýsingarnar eru þarna aðgengilegar er verið að brjóta gegn friðhelgi einkalífsins. Í því felst auðvitað mikið tjón og þess vegna tel ég ennþá að það hefði verið rétt að setja lögbann á síðuna.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK