Flytja lambakjöt til Indlands

Fátt jafnast á við íslenskt lambakjöt.
Fátt jafnast á við íslenskt lambakjöt. mbl.is/Árni Sæberg

Matvælastofnun hefur undanfarin tvö ár ásamt hagsmunaaðilum og sendiráði Íslands í Indlandi unnið að öflun leyfis til útflutnings á lambakjöti frá Íslandi til Indlands. Samningaviðræðum er lokið og er útflutningurinn orðinn að veruleika.

Þetta er annar stóri erlendi markaðurinn sem opnast fyrir íslenskt lambakjöt, en í haust var undirritaður samningur um hollustuhætti og matvælaöryggi vegna útflutnings á lambakjöti til Kína. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.

Fram kemur, að indversk yfirvöld hafi um mitt sumar veitt tímabundið leyfi til innflutnings á tilgreindu magni af lambakjöti. Endanlega hafi verið gengið frá heilbrigðisvottorði snemma í september, fyrsta sendingin fór til Indlands nú í byrjun október og fleiri sendingar séu fyrirhugaðar á næstu vikum. Gerðar séu ýmsar sérkröfur og sett skilyrði varðandi útflutning á lambakjöti til Indlands.

Mikilvægustu sérkröfur Indlands varða riðu. Einungis má flytja til Indlands ...
Mikilvægustu sérkröfur Indlands varða riðu. Einungis má flytja til Indlands kjöt af lömbum frá svæðum þar sem aldrei hefur greinst riða og kjötinu á að halda aðskildu frá öðru kjöti í vinnslu og í geymslum. mbl.is/Árni Torfason

Þá segir, að mikilvægustu sérkröfur Indlands varði riðu. Einungis megi flytja til Indlands kjöt af lömbum frá svæðum þar sem aldrei hafi greinst riða og kjötinu eigi að halda aðskildu frá öðru kjöti í vinnslu og í geymslum. 

Mikil áhersla er á að rekjanleiki sláturlamba og afurða þeirra sé öruggur. 

„Samningurinn gildir fyrir ákveðinn innflytjanda í Indlandi og frá einu sláturhúsi og tilgreindri vinnslustöð hér á landi. Um er að ræða tilraun til markaðssetningar á íslensku lambakjöti á Indlandi. Ef vel tekst til standa vonir til þess að fleiri framleiðendur á Íslandi geti notið góðs af.

Leyfi sem gefið var í þetta sinn er til sex mánaða, fyrir 5 tonn þar sem hluti af kjötinu er í heilum og hálfum skrokkum og hluti af kjötinu er stykkjaður og úrbeinaður,“ að því er Matvælastofnun greinir frá.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir