Atvinnulífi til framdráttar að auka hlut kvenna

„Ég er sannfærður um að það væri íslensku atvinnulífi til …
„Ég er sannfærður um að það væri íslensku atvinnulífi til framdráttar að auka hlut kvenna í efsta stjórnendalaginu,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Eftirtektarverður árangur hefur náðst í jafnréttisbaráttunni á Íslandi í ýmsum efnum á alþjóðlegum mælikvörðum og það er því ekki að ástæðulausu sem litið væri til Íslands sem fyrirmyndar í jafnréttismálum. Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, í ræðu um hlut kvenna í stjórnunarstöðum stofnana og fyrirtækja á ráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) í dag, sem fjallað er um á vef Stjórnarráðsins.

Á ráðstefnunni var fjallað um hreyfiaflsverkefnið Jafnvægisvogina, sem FKA vinnur að samkvæmt samstarfssamningi við velferðarráðuneytið, til að stuðla að aukinni vitundarvakningu um gildi jafnréttis og fjölbreytileika fyrir afkomu fyrirtækja.

Benti ráðherra á að rík áhersla hefði verið lögð á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði hér á landi. „Í því ljósi er athyglisvert hve erfitt okkur hefur reynst að brjóta upp kynjaskiptingu starfa, tryggja launajafnrétti og jafna völd og áhrif kynjanna“ sagði Ásmundur meðal annars og lagði áherslu á að enn bíði erfið verkefni sem þarfnist úrlausnar.

Þá ræddi hann um árangur laga um kynjakvóta sem tóku gildi árið 2013 og hve hægt gangi að ná markmiðum laganna þótt þróunin sé í rétta átt: „Ég er sannfærður um að það væri íslensku atvinnulífi til framdráttar að auka hlut kvenna í efsta stjórnendalaginu – í raun nægir að líta til stjórnmálanna en aukin þátttaka kvenna hefur haft mjög jákvæð áhrif á ásýnd og inntak þeirra og við vitum að aukið jafnrétti hefur jákvæð áhrif á vinnustaðamenningu,“ sagði Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK