Æ fleiri örbrugghús bætast í jólabjórflóðið

Tvær vikur eru í að hillur og gólf Vínbúðanna verði …
Tvær vikur eru í að hillur og gólf Vínbúðanna verði hertekin af jólabjór. Úrvalið hefur aldrei fyrr verið jafnmikið, 61 tegund verður í boði. mbl.is/Hari

Greint var frá því í Morgunblaðinu í byrjun vikunnar að ríflega sextíu tegundir af jólabjór yrðu boðnar til sölu í Vínbúðunum í ár. Sala á jólabjór hefst fimmtudaginn 15. nóvember næstkomandi og úrvalið hefur aldrei verið eins mikið og nú. Ekki er enda skrítið að framleiðendur og innflytjendur færi sig sífellt upp á skaftið því salan eykst með hverju árinu sem líður. Í fyrra seldust 757 þúsund lítrar af jólabjór í Vínbúðunum. Er þá ótalið það sem selst á börum og veitingastöðum eða í fríhöfninni í Leifsstöð.

Alls er 61 tegund af jólabjór í boði að þessu sinni. Það er umtalsverð fjölgun frá því í fyrra en vert er að geta þess að úrvalið er misjafnt eftir verslunum. Hægt er að fá ágæta yfirsýn yfir úrvalið á vefsíðu Vínbúðanna og þar er líka hægt að leggja inn sérpöntun, vilji áhugasamir vera öruggir um að ná að smakka ákveðnar tegundir.

Meira en helmingur innlendur

Vinsælasti jólabjórinn hefur verið hinn danski Tuborg sem þó er framleiddur hér á landi. Hins vegar hafa minni framleiðendur notið sífellt meiri vinsælda, enda gefst þarna ágætistækifæri til tilraunastarfsemi. Þekkt er að margir vinnustaðir og hópar koma saman fyrir jólin og smakka jólabjórana og margir eru þá spenntir fyrir nýjungum.

Þegar rennt er yfir bjórana sem í boði verða kemur í ljós að 29 tegundir eru innfluttar en 32 eru framleiddar hér á landi. Þar af er hlutur örbrugghúsa þó nokkur. Af þeim þekktu sem verða með í ár má nefna Ölvisholt, Gæðing, Borg brugghús, Kalda, Steðja, Einstök, Segul 67 og Bryggjuna brugghús. En svo bætast nokkur glæný í hópinn.

Þar ber fyrst að nefna Brothers Brewery frá Vestmannaeyjum sem hefur getið sér gott orð fyrir bjóra á borð við Gölla og Eldfell. Nú tekur brugghúsið í fyrsta sinn þátt í jólabjórflóðinu í Vínbúðunum með bjórnum Lepp.

Sama gildir með Malbygg, sem hóf fyrr á árinu að selja bjóra í Vínbúðunum. Hafa tegundir á borð við Galaxy IPA og Sopa mælst vel fyrir. Nú er komið að Jólakisa.

Brugghúsið Austri kynnir til leiks jólabjórinn Röndólf en Austri hefur vakið nokkra athygli eftir að opnaður var bar í brugghúsinu á Egilsstöðum. Þá verður RVK Brewing með forvitnilegan bjór á boðstólum; Co. & Co sem er tunnuleginn bakkelsis Stout.

Samfara því að úrval jólabjórs hefur aukist jafnt og þétt …
Samfara því að úrval jólabjórs hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin hafa þeir fengið sífellt forvitnilegri nöfn. Í ár gera áhugasamir til að mynda nælt sér í flösku af Flibbahnappi mandarínu White Ale, Jólafökker IPA eða Kakóhóhó. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikill áhugi á handverksbjór

Þessir litlu framleiðendur eru til marks um þá miklu grósku sem er í bjórheiminum og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu. Sífellt fleiri framleiðendur og veitingastaðir spretta upp og mikill áhugi virðist vera til staðar fyrir svonefndum handverksbjórum. Er hann bæði að finna hjá Íslendingum en ekki síður hjá erlendum ferðamönnum sem sækja í að smakka innlenda og spennandi framleiðslu.

Auk þessara nýju framleiðenda verða þeir eldri einnig með spennandi úrval. Víking býður upp á þrjá nýja jólabjóra, auk þeirra sem flestir þekkja. Þeir nýju kallast Flibbahnappur mandarínu White Ale, Jólafökker IPA og Kakóhóhó. Borg brugghús verður með fjóra bjóra. Þrjá eldri, þar á meðal Hurðaskelli nr. 54 sem naut mikilla vinsælda í fyrra og seldist fljótt upp, og hinn nýja Skyrgám nr. 60.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK