Búið að vera of ódýrt að fljúga

Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri telur þessa lendingu vera góða fyrir ferðaþjónustuna …
Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri telur þessa lendingu vera góða fyrir ferðaþjónustuna og eyði óvissu sem hafi verið í greininni vegna fjárhagsþrenginga WOW air. mbl.is/Eggert

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri var starfandi forstjóri lággjaldaflugfélagsins Iceland Express þegar að WOW air tók yfir flugáætlun félagsins í október árið 2012 og þekkir vel til flugrekstrar. Hann segir að yfirtaka Icelandair Group á WOW air í dag komi honum ekki endilega á óvart.

„Ég held að þetta sé bara lausn sem hljóti að vera góð fyrir alla aðila. Það hefur svo sem  alveg verið vitað um fjárhagsvandræði WOW og þó að það hafi eitthvað komið inn í þessu skuldabréfaútboði þá hefur [kostnaður] haldið áfram að hækka í umhverfinu og það þarf ekkert að koma á óvart að þessi leið hafi verið farin. Ég held að þetta sé bara góð útkoma,“ segir Skarphéðinn Berg í samtali við mbl.is.

Hann telur þessa lendingu vera góða fyrir ferðaþjónustuna og eyði óvissu sem hafi verið í greininni vegna fjárhagsþrenginga WOW air.

„Flugið er mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna og sú óvissa sem hefur verið, hún er ekki góð og ef það hefði komið til skyndilegrar stöðvunar á rekstri í flugi þá hefði það verið afar óheppilegt fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Þessi sameining breytir því og kemur á auknum stöðugleika og áreiðanleika í rekstrinum.“

Erlend samkeppni nægjanleg

Skarphéðinn segir að hann telji að erlend samkeppni á flugmarkaði sé nægjanleg og að hún muni aukast enn frekar á komandi árum.

„Flugfargjöld hafa verið býsna lág og bæði fyrirtækin hafa verið að tapa peningum, sem bendir til þess að það sé of ódýrt að fljúga og ég held að samkeppni frá erlendum flugfélögum sé algjörlega nægjanleg og hún sé orðin mjög öflug, bæði frá Ameríku og Evrópu. Það eitt og sér er alveg nægjanlegt samkeppnisumhverfi og það mun örugglega bara aukast á næstu árum,“ segir Skarphéðinn.

Mun kannski breyta Boeing-áhuga Icelandair

„Ég held að það sé hellings áskorun að vinna úr þessari sameiningu, en ég held að menn muni alveg geta gert það. Þetta eru hvort með sínum hætti góð fyrirtæki, en það er alltaf flókið mál að sameina fyrirtæki, sérstaklega þegar þau eru ólík eins og er í þessu tilfelli,“ segir Skarphéðinn, en hann segir að áhugavert verði að fylgjast með því hvernig flugfloti Icelandair og WOW air muni þróast í kjölfar yfirtökunnar. Icelandair hefur til margra áratuga verið með Boeing-flugvélar í sínum flota, en floti WOW air samanstendur af Airbus-vélum.

Skarphéðinn veltir því upp hvort yfirtakan á WOW air muni …
Skarphéðinn veltir því upp hvort yfirtakan á WOW air muni leiða til þess að „einlægur Boeing-áhugi“ Icelandair dvíni. AFP

„Það verður mjög áhugavert hvernig það mun þróast. Það er alveg þekkt að það eru flugfélög sem eru bæði með Boeing og Airbus í sínum flota en það er áhugavert hvort að þessi yfirtaka muni eitthvað breyta þessum einlæga áhuga sem Icelandair hefur haft á Boeing og hvort að þeir muni horfa í auknum mæli til Airbus, sem eru býsna góðar flugvélar,“ segir Skarphéðinn.

Hann segir að Airbus hafi gengið miklu lengra en Boeing í því að eyða mismun sem er á milli misstórra flugvéla úr þeirra smiðju. Það þýðir að flugmenn geta gengið á milli misstórra flugvéla hjá Airbus á meðan að það er ekki mögulegt hjá Boeing, þar sem flugmenn þurfa að sækja sér réttindi til þess að fljúga mismunandi gerðum Boeing-flugvéla.

„Það er aukinn sveigjanleiki í því. Þetta eru frábærar flugvélar frá Airbus og það er spurning hvort þetta muni eitthvað breyta þessum Boeing-áhuga sem hefur verið svo áberandi hjá Icelandair. Boeing eru auðvitað góðar flugvélar en [Icelandair] hafa ekkert litið á aðrar flugvélategundir í tugi ára,“ segir ferðamálastjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK