„Í örmum Icelandair“

Norskir fjölmiðlar gera sér mat úr kaupum Icelandair á WOW …
Norskir fjölmiðlar gera sér mat úr kaupum Icelandair á WOW í dag og hafa eftir sérfræðingi að ráðahagurinn sé þó ekki sem verstur. mbl.is/Hallur

„Fljúgandi sameining á Íslandi,“ skrifar norski viðskiptavefmiðillinn E24 í fyrirsögn í dag og fjallar um kaup Icelandair á WOW air. „Þungbært samkeppnisumhverfi og hækkandi olíuverð leggja WOW í arma Icelandair.“

Það er Marius Lorentzen, skrifari hjá E24, sem kemst svo glettnislega að orði í dag svo sem hans er von og vísa en undirtónn umfjöllunar hans er þó alvarlegri og kemur hann meðal annars inn á stórhækkað olíuverð, erfitt samkeppnisumhverfi íslenskra flugfélaga og nýlegar fréttir af skyndilegu skipbroti Primera Air.

„Icelandair á um þessar mundir í viðræðum við lánardrottna sína þar sem fyrirtækinu hefur ekki auðnast að standa undir skuldbindingum sínum, en WOW hefur ekki síður átt undir högg að sækja og er þess nú freistað að rétta stefnuna sem sameinuð félög.“

Nýta Ísland sem millistykki

Fleiri norskir fjölmiðlar hafa gert sér mat úr stórfrétt dagsins úr íslensku viðskiptalífi og greinir vefsíða ABC Nyheter frá því að íslenska flugfélagið Icelandair hafi keypt keppinautinn WOW air til að verjast stórversnandi aðstæðum á íslenska flugmarkaðnum. Vitnar ABC í flugmálarýninn Hans Jørgen Elnæs sem reyndar hafði spáð fyrir um að þessi íslenski samruni væri ekki ósennilegur miðað við hækkandi olíuverð og erfiða samkeppni.

„Hvor tveggju félögin Icelandair og WOW air hafa séð sér hag í því að nýta Ísland sem áningarstað milli Evrópu og Norður-Ameríku, enda er staðsetning landsins upplögð sem gerir það að eðlilegum valkosti til millilendinga,“ skrifar ABC.

Norska ríkisútvarpið NRK lætur að lokum ekki sitt eftir liggja og fjallar um kaup Icelandair í örfrétt hjá sér í dag en E24 leggur norskra miðla mest í fréttina og vitnar í Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW, og Boga Nils Bogason, nýbakaðan forstjóra Icelandair Group. Hefur miðillinn eftir Boga að öflugt framboð á flugi sé ferðamannageiranum á Sögueyjunni (n. Sagaøya, sem er algengt gælunafn Íslands í Noregi) lífsnauðsynlegt og einn af hornsteinum íslensks hagkerfis.

Vitnar E24 einnig í Hans Jørgen Elnæs og klykkir út með ummælum hans: „Sameinað Icelandair og WOW er sterkur leikur þegar litið er til vaxtar félaganna og mun reynast affarasælt hvort tveggja á stuttum sem löngum flugleiðum.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK