„Þetta er því augljósasta lendingin“

Kristján segir kaupin líklega bestu niðurstöðuna miðað við stöðuna.
Kristján segir kaupin líklega bestu niðurstöðuna miðað við stöðuna. Samsett mynd

„Síðan í sumarlok hafa aðstæður til flugrekstrar versnað enn meira og það var orðið augljóst að þetta skuldabréfaútboð WOW air tókst ekki sem skyldi. Hagnaður af rekstri Icelandair á þriðja ársfjórðungi lækkar líka talsvert og það stefnir í að félagið verði rekið með tapi í ár. Þannig það var nokkuð augljóst að það var ekki hægt að halda áfram með óbreyttum hætti,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is, um kaup Icelandair á öllu hlutafé í WOW air.

Kristján velti því upp í lok ágúst þegar Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, sagði starfi sínu lausu, hvort WOW air og Icelandair myndu ekki sameinast fyrr en síðar. „Síðan þá hef bara verið að styrkjast í trúnni um að sú hugmynd sem ég kastaði fram þar yrði að veruleika,“ segir Kristján. Kaup Icelandair á WOW air nú koma honum því ekki á óvart.

„Framboðið á flugi til og frá landinu hefur sennilega verið allt of mikið og forsvarsmenn WOW hafa sennilega ekki geta[ð] staðið undir áframhaldandi taprekstri. Þetta er því augljósasta lendingin og kannski sú besta fyrir íslenska ferðaþjónustu og íslenska neytendur. Að þetta endi með þessum hætti en ekki gjaldþroti WOW air.“

Kristján segir að slíkt hefði valdið miklum álitshnekki fyrir Ísland, fyrir utan að valda farþegum bæði truflunum og fjártjóni.

Í lok ágúst taldi Kristján að samkeppnisyfirvöld hér á landi kynnu að hafa eitthvað við sameiningu flugfélaganna tveggja að athuga, en nú er hann á annarri skoðun. „Ég ímynda mér að staða WOW air hafi verið það slæm að Samkeppniseftirlitið geti ekki staðið í vegi fyrir þessu.“

Kristján segir mjög áhugavert að sjá hvernig það verði leyst að reka félögin áfram á eigin forsendum undir eigin vörumerkjum, líkt og stefnt er að því að gera. Það verði til að mynda áhugavert að sjá hvað gert verði varðandi flugvélaflotann.

„WOW air notast við Airbus-þotur á meðan Icelandair er með Boeing þotur. Þar eru samlegðaráhrifin í sjálfu sér lítil eða engin. En á móti kemur að WOW air er með allar sínar þotur á leigu á meðan Icelandair á sínar. Það má velta því fyrir sér hvort eitthvað [sic] af þeim vélum sem WOW air er með á leigu verði skilað og eitthvað af þotum Icelandair verði þá nýttar í WOW air flugið.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK