„Ofurtilboðið bara ótrúlega gott tilboð“

Gylfi Þór Sigurðsson og liðsfélagar hans verða í beinni útsendingu …
Gylfi Þór Sigurðsson og liðsfélagar hans verða í beinni útsendingu hjá Símanum á næsta ári. AFP

Forsvarsmenn Símans taka ekki undir að tilboð þeirra í enska boltann hafi verið ofurtilboð eins og framkvæmdastjóri Sýnar segir tilboðið hafa verið. „Ég er ekki sammála að þetta sé ofurtilboð, við höfum reiknað þetta út frá viðskiptalegum forsendum,“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans, við mbl.is. Hann segir hægt að bjóða upp á þjónustuna á lægra verði og höfða þannig til breiðari markhóps.

Guðmundur segir að Síminn geti ekki tjáð sig um áformin varðandi það hvernig sýningum verði háttað þar sem rekstrarfélag ensku úrvalsdeildarinnar vilji að núverandi rétthafi klári sýningar á núverandi tímabili áður en Síminn geti tjáð sig í smáatriðum um hvernig þjónustu hann ætli að bjóða upp á.

Í Fréttablaðinu í morgun kom fram að Sýn hafi boðið 1,1 milljarð í sýningarréttinn næstu þrjú árin. Þá sé ákvæði í útboðinu um að ef minna en 10% munur sé á efstu tveimur tilboðunum þurfi að halda aðra umferð. Guðmundur staðfestir að þessir skilmálar hafi verið í útboðinu og að ákvæðið hafi ekki verið virkjað. Því er ljóst að tilboð Símans hefur verið yfir 1,21 milljarður fyrir árin þrjú.

Fleiri áskrifendur með lægra verði

Guðmundur segir að þetta sé eini sýningarréttur Símans að íþróttaefni. Segir hann að áskriftartekjur vegna fótboltans þurfi því ekki að greiða niður sýningarrétt frá öðrum íþróttaviðburðum. Segir hann að fyrirtækið telji að hægt verði að fá fleiri áskriftir með því að vera ódýrari og fá þannig fleiri áhugamenn um ensku deildina til að kaupa áskrift. „Ofurtilboð, bara ótrúlega gott tilboð,“ segir hann.

Spurður hvort útsendingar verði í línulegri eða ólínulegri dagskrá segir hann að slíkt hafi ekki enn verið ákveðið. Enska úrvalsdeildin stýrir því hversu marga leiki má sýna, en í tilkynningu í gær kom fram að Síminn myndi sýna 15% fleiri leiki en nú er gert. Þá væru leikir sýndir í 4k skerpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK