Hagstjórn síðustu ára heppnast vel

Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun. mbl.is/Hjörtur

„Við erum að ganga í gegnum umskipti í efnahagsmálunum. Það sem er að gerast er það að mikill uppgangur samfara verðbólgu undir markmiði er núna að láta undan síga og því fylgir hægari vöxtur og aukinn verðbólguþrýstingur,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á Peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands sem fram fór á Hilton Nordica í morgun.

Már sagði að að baki velgengni síðustu ára, sem skýrði hvers vegna þessi umskipti væru að eiga sér stað, hafi annars vegar búið mikill bati í ytri skilyrðum þjóðarbúsins, sem birst hafi ekki síst í bættum viðskiptakjörum og í miklum vexti í komum erlendra ferðamanna til landsins, og hins vegar hagstjórnin sem heppnast hefði vel í sögulegu samhengi með tilliti til annars vegar þess að halda verðbólgu í skefjum og hins vegar að tryggja að gengi krónunnar virkaði til sveiflujöfnunar en ekki til sveiflumögnunar eins og stundum hefði gerst áður í sögunni.

„Peningastefnan náði árangri við að færa verðbólgu- og síðan verðbólguvæntingarmarkmið á árunum eftir 2012 án fórnarkostnaðar fyrir efnahagslífið. Og þetta er óvenjulegt. Gjaldeyrisinngrip, fjármagnshöft og síðar sérstök bindiskylda á fjármagnsinnflæði og hlutabréfamarkað og hávaxtainnistæður vörðu gengið fyrir áhrifum sveiflukenndra fjármagnshreyfinga og það gat því þróast meira óáreitt í samræmi við undirliggjandi efnahagsaðstæður.“

Þannig hafi kostir sveigjanlegs gengis notið sín en ókostirnir verið mildaðir. Þetta hafi þó ekki verið einföld sigling því ljóst væri að þó að jafnvægisgengið hafi hækkað væri alltaf töluverð óvissa um það hvert það væri á hverjum tíma og hættan á ofrisi gengisins verið raunveruleg. Sú hætta kunni að hafa raungerst í einhverjum mæli. En án áðurnefndra tækja Seðlabankans væri hætt við að það hefði gerst í mun meira mæli með tilheyrandi áhættu á snarpri leiðréttingu síðar.

Vöxturinn gat ekki gengið til lengdar

Már sagði að umskiptin í efnahagsmálum nú ættu rætur að rekja til þess að viðsnúningur hefur orðið á sumum þeim sviðum sem áður hefðu stuðlað að velgengninni. Alþjóðlegt efnahagsástand væri Íslendingum ekki eins hagstætt, viðskiptakjörin við útlönd hefðu versnað og mjög hefði dregið úr aukningu á komum erlendra ferðamanna. Afleiðingin væri sú að það drægi talsvert úr vexti útflutningstekna þjóðarbúsins í ár og á næstu árum miðað við síðustu þrjú ár.

Frá fundi Viðskiptaráðs í morgun.
Frá fundi Viðskiptaráðs í morgun. mbl.is/Hjörtur

„Það þýðir að hagvöxturinn verður minni og einnig aukningin í rauntekjum okkar sem þjóðar. Hvað svo sem við kunnum að ákveða um aukningu nafntekna í kjarasamningum eða skiptingu þeirra okkar á milli. Þetta þýðir líka að jafnvægisgengi krónunnar hefur líklega lækkað upp á síðkastið og það kann að vera hluti af skýringunni á lækkun krónunnar að undanförnu. Verri ytri skilyrði þjóðarbúsins eru auðvitað ekki góð tíðindi en setja þarf þá þróun í samhengi við það hversu mikið við höfum dafnað á síðustu árum,“ sagði seðlabankastjóri enn fremur.

Már sagði að á heildina litið væru þessi umskipti að ýmsu leyti jákvæð. Vöxtur liðinna ára hafi ekki getað staðist til lengdar og reynt á þanþolið í þjóðarbúskapnum. Samkvæmt spá Seðlabankans í gær yrði lendingin mjúk. Hagvöxtur næstu þrjú árin yrði 2,6% og allt tímabilið nálægt því sem þjóðarbúið gæti vaxið að jafnaði án þess að flytja þyrfti inn vinnuafl í stórum stíl. Spennan slaknaði smám saman og yrði horfin fyrir lok spátímans árið 2021. Verðbólgan færi upp á næsta ári en yrði síðan við markmiðið út spátímann. Meðal annars vegna þess að vextir hækkuðu þegar verðbólga færi upp.

„Sumir myndu kannski segja að þetta sé of gott til þess,“ sagði Már. Það kynni að fara svo en það væri þá vegna þess að einhverjir þættir raungerðust sem ekki væri gengið út frá í spánni að kunni að gerast. Það væri svo margt sem gæti gerst. Til dæmis gætu orðið mistök í hagstjórninni, undirskot eða yfirskot á mörkuðum eða áföll dunið yfir utan frá til dæmis vegna viðskiptastríða. „Svo gætu kjarasamningar farið úr böndunum með þeim hætti að launahækkanir yfir alla línuna yrðu langt umfram það sem gert er ráð fyrir í spá bankans sem er þó töluverð.“

Ekkert tilefni til mikillar svartsýni

Við þessar aðstæður myndu verðbólguhorfur vitanlega versna sem myndi kalla á hækkun vaxta. Hægari vöxtur í framhaldinu gæti endað í samdrætti. Óvissa væri alltaf í einhverjum mæli í báðar áttir og vitanlega gætu líka aðstæður breyst þannig að staðan yrði betri en spáð væri. Við núverandi aðstæður væri hins vegar líklegra að áhættan væri meiri niður á við en upp á við varðandi hagvöxt.  Þá væri mikilvægt að þjóðarbúið hafi sennilega sjaldan eða aldrei verið betur undir það búið að takast á við stór áföll.

„Við eigum meira en við skuldum í útlöndum. Við erum með einn stærsta gjaldeyrisvaraforða í okkar sögu og hann er nánast alfarið fjármagnaður innanlands. Skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera hafa lækkað mikið á undanförnum árum í hlutfalli við tekjur. Bankar standa sterkt með há eiginfjárhlutföll og umtalsvert eigið fé og nýbirt áfallspróf Seðlabankans bendir til að þeir muni standa af sér miklu meiri áföll en myndi teljast sennilegt.“

Már sagði að ólíkt ýmsum öðrum þróuðum ríkjum hefði Ísland mikið hagstjórnarlegt svigrúm til þess að bregðast við áföllum þar sem vextir Seðlabankans væru langt frá núllinu og hið opinbera með afgang og tiltölulega góða skuldastöðu. Þá væri gengi krónunnar enn sterkt þótt það hefði lækkað að undanförnu, en vænta mætti að raungengið væri á svipuðum stað og síðla sumars 2006. „Mig rekur ekki minni til þess að neinn hafi kvartað undan lágu gengi á þeim tíma.“

Már sagði að með lækkun krónunnar hefði hættan á snarpri leiðréttingu minnkað og jafnvel mætti færa fyrir því rök að áhættan væri um þessar mundir í hina áttina. Það er að of mikil svartsýni gæti haft neikvæð áhrif á þróun efnahagsmálanna. Samantekið mætti segja að staða þjóðarbúsins væri enn þá frekar góð og ekkert hefði enn gerst sem gæfi tilefni til mikillar svartsýni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK