Mun krefja Kaupþing um svör

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun falast eftir því við Seðlabankann að hann óski svara frá Kaupþingi um hvernig hann ráðstafaði 500 milljóna evra neyðarláni sem hann fékk 6. október 2008.

Þetta kemur fram í svari Katrínar við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar um umrætt Kaupþingslán.

Fram kemur að Seðlabankinn búi ekki yfir áreiðanlegum upplýsingum um það hvernig Kaupþing ráðstafaði umræddum fjármunum og að fyrirspurn þess efnis verði að beina til Kaupþings.

Endurheimtur lánsins nema í dag tæplega tveimur milljörðum danskra króna. Það samsvarar um 260 milljónum evra eða 52% af upphaflegu láni. Ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um endurheimtur og líklegt að eitthvað innheimtist í viðbót,“ kemur fram í svari sem Seðlabankinn sendi forsætisráðuneytinu vegna fyrirspurnar Jóns.

Katrín hefur í hyggju að óska eftir því við Seðlabankann að hann óski svara frá Kaupþingi um ráðstöfun umræddra fjármuna.

Jafnframt að bankinn greini frá niðurstöðu þeirra umleitana í skýrslu og eftir ativikum að bankinn greini frá því hvernig fjármunum var varið, að því marki sem bankinn telur slíkt heimilt með hliðsjón af lögum og reglum um bankaleynd og þagnarskyldu sem ríkja skal um slíkar upplýsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir