Reglur til að hemja Airbnb

Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, situr nú leiðtogafund Sharing Cities í Barcelona fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Alls taka fulltrúar 31 borgar þátt í fundinum. Þar hefur verið rætt um áhrifin sem stöðugur vöxtur nethagkerfa eins og Airbnb, Uber, Booking.com og fleiri stórfyrirtækja hefur á mannlíf og efnahagsþróun í borgunum.

„Tilgangur leiðtogafundarins er að finna nýjar leiðir til að takast á við vandamál sem upp koma í tengslum við slíka starfsemi en einnig að skoða hvernig nýta má þau tækifæri sem þróunin opnar fyrir borgir með hagkvæmum og sanngjörnum hætti fyrir íbúa og ferðamennsku,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þórdís Lóa segir í tilkynningunni að Reykjavíkurborg fagni þróuninni í þessum mikilvæga málaflokki, deilihagkerfið sé komið til að vera og muni bæði stækka og umbreytast gríðarlega á komandi árum. „Reykjavíkurborg vill vera frjór jarðvegur fyrir þessa þróun. Við viljum mæta henni með nýsköpun, krafti og skýrum línum. Það er nauðsynlegt að hafa skýran ramma utan um starfsemina og huga að því hvernig hægt er að koma sem best til móts við ólíkar þarfir fólks,“ segir hún.

Leiðtogafundur Sharing Cities hefur sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um meginreglur borga og skuldbindingar um sjálfsstjórn borga gagnvart nethagkerfinu. Þar er einnig að finna ítarlega aðgerðaáætlun um mikilvæg atriði eins og sameiginlegar lágmarkskröfur í samningaviðræðum og leiðir til að styðja borgir í slíkum viðræðum við fyrirtæki sem reka nethagkerfi; hagsmunagæslu gagnvart öðrum stjórnsýslustigum og myndun tengslanets til að sporna við ólöglegri leigu húsnæðis til ferðamanna svo eitthvað sé nefnt.

Einnig verður stofnaður starfshópur til að efla samskipti, samstarf og samhæfingu aðgerða á milli borga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK