Þjónustugjöld hækka langt umfram verðlag

Mestur er verðmunurinn á afgreiðslugjaldi vegna innlagnar reiðufjár í annan …
Mestur er verðmunurinn á afgreiðslugjaldi vegna innlagnar reiðufjár í annan banka sem kostar 495 kr. hjá Arion banka, 375 kr. hjá Íslandsbanka og 100 kr. hjá Landsbankanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úttekt verðlagseftirlitsins á verðskrám bankanna sýnir að þjónustugjöld hafa hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir mikla hagræðingu í bankakerfinu á síðustu árum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands.

Þar segir að dýrt sé að sækja sér þjónustu í útibú eða símaver en gjöld tengd slíkri þjónustu hafi hækkað mikið á síðustu árum auk þess sem ýmsir þjónustuliðir hafi bæst við sem ekki voru til áður.

„Þá rukka bankarnir viðskiptavini enn fyrir ýmsan kostnað sem á ekki við í dag eins og FIT (færslu­skrá inni­stæðulausra tékka) kostnað. Gjaldskrár bankanna eru þar að auki afar flóknar og ógagnsæjar sem gerir neytendum erfitt fyrir að átta sig á kostnaði eða gera samanburð milli banka,“ kemur fram í tilkynningu ASÍ.

Sé vísitala neysluverðs skoðuð megi sjá að þjónustugjöld banka og kostnaður við greiðslukort hafi hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir mikla hagræðingu í bankageiranum á síðustu árum með mikilli fækkun útibúa og starfsmanna.

Til að mynda hefur Arion banki tekið upp fast afgreiðslugjald upp á 195 kr. fyrir aðgerðir sem framkvæmdar eru af þjónustufulltrúa en ýmsir liðir kosta þó töluvert meira.

375% munur á afgreiðslugjaldi

Mestur er verðmunurinn á afgreiðslugjaldi vegna innlagnar reiðufjár í annan banka sem kostar 495 kr. hjá Arion banka, 375 kr. hjá Íslandsbanka og 100 kr. hjá Landsbankanum en það gerir 375% verðmun á hæsta verðinu hjá Arion og því lægsta hjá Landsbankanum. Þá hafa tilkynninga- og greiðslugjöld hækkað mikið hjá öllum bönkunum auk þess sem gjöld sem tengjast íbúðalánum hafa hækkað mikið hjá Íslandsbanka og Arion banka. 

Á síðustu þremur árum (okt 2015- okt 2018) hefur bankakostnaður hækkað um 11% og kostnaður við greiðslukort um 19% en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7%.

Frá árinu 2008 hefur útibúum bankanna fækkað úr 146 í 74 og starfsmönnum fækkað úr 4.326 í 2.850 eða um tæplega 1500. Viðskiptavinir geta í dag framkvæmt flest alla þjónustu rafrænt án beinnar aðkomu starfsfólks og án þess að fara í útibú en tækniframfarir spila stóran þátt í þessum miklu breytingum sem hafa gert bönkunum kleift að hagræða síðustu ár.

„Það vekur því nokkra furðu að verðhækkanir þeirra séu jafnmiklar og raun ber vitni. Þrátt fyrir að einhver munur sé á verðlagningu bankanna virðist lítil samkeppni vera í verðlagningu milli þeirra. Ef einn banki hækkar gjöld virðist næsti fylgja á eftir með svipaðar verðhækkanir. Það er því ekki að sjá að bankarnir reyni að keppa um viðskiptavini í verði og einkennist markaðurinn af fákeppni,“ segir í tilkynningunni en neytendur eru hvattir til að skoða hvernig þeir geti lækkað bankakostnað sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK