Gera tilboð í flugfélag á Grænhöfðaeyjum

Í ágúst 2017 gerðu Loftleiðir Icelandic samning við stjórnvöld á …
Í ágúst 2017 gerðu Loftleiðir Icelandic samning við stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum um endurskipulagningu Cabo Verde Airlines.

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, hefur ásamt íslenskum fjárfestum lagt inn bindandi kauptilboð í 51% hlut í ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja, Cabo Verde Airlines. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallarinnar.

Greint var frá því í haust að að Icelanda­ir hafi fengið boð frá rík­is­flug­fé­lagi Cabo Ver­de Air­lines um að eign­ast ráðandi hlut í fé­lag­inu þegar það verður einka­vætt. Í ágúst 2017 gerðu Loftleiðir Icelandic samning við stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum um endurskipulagningu Cabo Verde Airlines.

„Markmið samkomulagsins var jafnframt að styrkja alþjóðaflugvöllinn á Grænhöfðaeyjum, að byggja eyjarnar upp sem vænlegan áfangastað og að byggja upp tengiflugsbanka fyrir alþjóðaflug. Þá lá jafnframt fyrir að hugað væri að einkavæðingu félagsins,“ segir í tilkynningu. Cabo Verde Airlines hefur nú þegar rekstrarleyfi til að fljúga áætlunarflug til Evrópu og Bandaríkjanna.

Kaupverðið trúnaðarmál

Kaupverðið á meirihluta í félaginu er trúnaðarmál. Að hluta til yrði greitt fyrir félagið með þeirri vinnu sem starfsmenn Loftleiða Icelandic hafa þegar innt af hendi. Kaupin fara fram í gegnum félagið Loftleiðir Cabo Verde. Loftleiðir Icelandic eiga 70% hlut í félaginu en aðrir hluthafar 30%. Þá segir að kaupin muni hafa óveruleg áhrif á reikningsskil Icelandair Group þar sem Cabo Verde Airlines mun ekki verða hluti af samstæðureikningi Icelandair Group. Eignarhluturinn verður færður á meðal hlutdeildarfélaga.

„Það felast í því mikil tækifæri fyrir Loftleiðir Icelandic að taka þátt í kaupum á meirihluta Cabo Verde Airlines þar sem búist er við mikilli fjölgun farþega í Afríku á næstu árum,“ er haft eftir Árna Hermannssyni, framkvæmdastjóra Loftleiða Icelandic, í tilkynningu.

Hann segir að mögulegt verði að nýta flugvélar úr flota Icelandair Group og eftir atvikum áhafnir, líkt og gert er nú þegar. „Við myndum jafnframt sækja frekar í reynslu Icelandair hvað varðar uppbyggingu tengiflugs. Í tilfelli Cabo Verde Airlines eru til staðar tækifæri fyrir vel skipulagt tengiflug á milli Evrópu og Suður Ameríku annars vegar og Vestur Afríku og Norður Ameríku hins vegar, ásamt Vestur Afríku og Evrópu. Staðsetning eyjanna er ákjósanleg fyrir slíka uppbyggingu,“ er haft eftir Árna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK