Sjálfakandi bílar á Íslandi komnir innan 10-15 ára

Sjálfakandi bíll frá Waymo, en 82.000 slíkir bílar eru á ...
Sjálfakandi bíll frá Waymo, en 82.000 slíkir bílar eru á leið á göturnar í Arizona fyrir áramót. AFP

Bandaríski skipulagsfræðingurinn og prófessor við Oregon háskóla, Nico Larco, sem erindi hélt á 80 ára afmæli Skipulagsstofnunar á dögunum, segir að 10-15 ár gætu mögulega verið í að sjálfakandi bílar verði komnir á göturnar í einhverjum mæli hér á landi.

„Borgarskipulag er unnið 30 ár fram í tímann, og í raun hefðu menn þurft að byrja að undirbúa framtíð með sjálfakandi bílum fyrir 15 árum síðan, til að hún gæti raungerst eftir 15 ár héðan í frá,“ sagði Nico í samtali við Morgunblaðið.

Þróun á fleygiferð

Hann segir þróunina hvað varðar sjálfakandi bíla vera á fleygiferð, og ganga mun hraðar en hann sjálfur hafði gert sér í hugarlund. „Það ótrúlega er að fyrstu sjálfakandi farartækin fóru á götuna í Bandaríkjunum fyrir aðeins tveimur árum síðan, og nú erum við að fara að sjá fyrstu 4. stigs sjálfakandi bílana ( stigin eru fimm, en bílar á 4. stigi hafa engan ökumann, og eru á ferðinni á afmörkuðu svæði, t.d. í völdum borgum eða hverfum) á götunum fyrir næstu áramót.“

Larco segir að þar sé á ferð verkefni sem Waymo, sem er í eigu Alphabet, móðurfélags Google tæknirisans, sé að setja af stað í Arizona fylki, en þar munu brátt 82 þúsund bílar verða í boði fyrir almenning.

Larco segir aðspurður að vissulega séu veðuraðstæður í Arizona með besta móti fyrir svona þjónustu, en bætir við að nú þegar séu byrjaðar prófanir á sjálfakandi farartækjum í Detroit borg þar sem er mun misviðrasamara en í Arizona. „Það er mikill áhugi að prófa svona bíla fyrir slík svæði, enda opnar það gríðarlega stóran markað. Ég gæti trúað að það séu um 10 ár þangað til sjálfakandi bílar geta ekið í snjó og hálku.“

Óhagkvæmt að leggja bílum

Hvað borgarskipulag varðar segir Larco að í framtíðinni, með tilkomu sjálfakandi bíla, dragist fjöldi bíla saman um 80% og við það losni um gríðarleg landsvæði í borgum og bæjum, sem í dag eru lögð undir bílastæði. „Í dag er fjölda bíla lagt allan daginn, sem er mjög óhagkvæmt. Bráðum koma t.d. mannlausir Uber leigubílar sem eru stanslaust að sækja fólk og skutla því, og þannig er bíllinn í stöðugri vinnu, í stað þess að sitja aðgerðalaus á bílastæði heilu dagana. Þetta er ástæðan fyrir því að bílastæðum mun fækka gríðarlega. Þetta mun svo aftur hafa áhrif á verð á húsnæði, þar sem meira framboð verður af landi, og verðið lækkar.“

Margir hafa velt fyrir sér hvað mannfólkið muni hafa við allan tímann að gera sem t.d. sjálfakandi farartæki, og aukin netverslun spara. „Við erum félagsverur, og þó við hittumst ekki lengur úti í búð, þá hittumst við úti á veitingastað eða á öðrum stöðum sem bjóða upp á skemmtilegar upplifanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir