Krónan drífur verðbólguna upp

mbl.is/Heiðar

Veiking krónunnar drífur verðbólguna áfram milli mánaða en frá byrjun ágúst hefur gengisvísitalan veikst um 14%, samkvæmt greiningardeild Arion banka. Verðbólga mæld á ársgrundvelli hefur ekki verið jafn mikil í fimm ár.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% á milli mánaða í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 3,3%, úr 2,8% í október. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,3-0,35% og er mælingin því lægri en spár greiningaraðila sem birta spár opinberlega. Arion banki spáði 0,35% hækkun.

„Þó mælingin hafi verið undir spám þá er ekki um að villast að verðbólga er á uppleið en hún hefur ekki verið hærri síðan í desember 2013. Vísitala neysluverðs fyrir desember er birt fyrir jól (20. desember) og því framkvæmir Hagstofan mælinguna í næstu viku. Það má því gera ráð fyrir að næstu verðbólguspár greiningaraðila verði birtar strax í næstu viku,“ segir í verðbólgugreiningu Arion banka.

Af þeim liðum sem ýttu undir hækkun verðlags má helst nefna; verð á bílum hækkaði um 1,66% (0,14% áhrif á VNV), matarkarfan hækkaði um 0,18% (0,02% áhrif á VNV), reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækkaði um 0,34% (0,07% áhrif á VNV), tómstundir (raftæki falla hér undir) hækkuðu um 0,7% og verð á húsgögnum hækkaði um 1,7% (0,07% áhrif á VNV). Liðir sem ýttu vísitölunni niður á við eru verð á flugfargjöldum til útlanda sem lækkaði um 13,3% (-0,19% áhrif á VNV) og verð á eldsneyti sem lækkaði um 1% (-0,03% áhrif á VNV).

„Frá byrjun ágúst hefur gengisvísitalan veikst um 14%, verðbólgan frá því í ágúst nemur 1,1% og ef við gerum ráð fyrir 30% gengisleka, þ.e. ef krónan veikist um 1% þá hækkar verðbólgan um 0,3%, þá má gera ráð fyrir að heildaráhrif veikingar krónu á verðbólgu nemi 4,2% og má því segja að fjórðungur áhrifanna sé kominn fram.

Ef krónan hins vegar styrkist á ný, ættu verðbólguáhrifin að vera minni. Þó er mikilvægt að hafa í huga að gengisáhrifin eru ósamhverf að því leyti að styrking krónunnar dregur ekki jafn mikið úr verðbólgunni og samsvarandi veiking eykur hana,“ segir í greiningu Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK