Skipurit fyrirtækja geta þvælst fyrir nýsköpun

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir. Kristinn Magnússon

Allt síðan Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já.is fékk það verkefni að stofna fyrirtækið árið 2005, sem dótturfélag Símans, hefur vöxturinn verið um 10% á ári, og veltir félagið nú um 1,5 milljörðum króna á ári.

Sigríður Margrét segir að á þeim 13 árum sem Já hefur verið starfrækt hafi það gengið í gegnum 100% stafræna umbreytingu. „Okkar saga er mjög skemmtileg. Ef þú skoðar ársreikninga aftur í tímann má sjá huggulega og áhugaverða mynd. Tekjuvöxturinn hefur verið um 10% á ári að meðaltali, og við höfum alltaf skilað hagnaði, en undir niðri hefur allt breyst. 100% af tekjunum sem við erum að skapa í dag koma frá vörumerkjum sem ekki voru til þegar við fórum af stað í upphafi. Að auki þá eru aðeins fjórir starfsmenn af þeim 115 sem starfa hjá félaginu í dag, í 75 stöðugildum, enn hjá fyrirtækinu,“ segir Sigríður Margrét.

Hún segir að stafræn þróun sé sífellt að verða fyrirferðarmeiri í atvinnulífinu, og annað hvort verði fyrirtæki að verða stafræn eða vinna náið með tæknifyrirtækjum til að lifa af. „Eitt það fyrsta sem við gerðum þegar við stofnuðum Já var að kaupa leitartæknifyrirtækið Spurl. Margir spurðu sig á þeim tíma afhverju í ósköpunum Símaskráin væri að kaupa leitartæknifyrirtæki, en leitartækni skiptir í dag gríðarlegu máli í allri okkar starfsemi. Hún gerir okkur fært að koma með uppástungur fyrir fólk, sjálfvirka útfyllingu í leitarglugga, lifandi leitarniðurstöður í rauntíma, og í raun allt þetta sem fólk þekkir frá Google.“

Sigríður bendir á þá hröðu þróun sem orðið hefur á síðustu árum. „Við erum búin að lifa byltingu í tækninni. Fyrir réttum áratug var ekki til snjallsími eins og við þekkjum hann í dag,“ segir Sigríður til útskýringar.

Smá í samanburði við tæknirisana

Ein stærsta áskorunin sem Já hefur þurft að takast á við er að uppfylla þarfir og væntingar íslenskra notenda sinna í umhverfi sem verður sífellt alþjóðlegra. „Íslenskir notendur nota jöfnum höndum þjónustu frá alþjóðlegum risafyrirtækjum og íslenskum fyrirtækjum, og gefa engan afslátt af væntingum sínum. Þess vegna verðum við alltaf að standa okkur í samkeppninni, þó við séum agnarsmá í samanburði við samkeppnisaðila eins og Google, Amazon eða Facebook.“

Eitt gott dæmi um verkefni sem Já réðst í á sínum tíma til að halda í við alþjóðlega þróun og standast samkeppni við Google, var að ljósmynda allt Ísland og samþætta við kortagrunn Já. „Á þeim tíma vorum við búin að bíða lengi eftir að tæknin yrði tilbúin og á verði sem við réðum við, og árið 2013 treystum við okkur svo loksins í verkefnið. Verðið var loksins orðið viðráðanlegt. Þetta er eitt stærsta gagnavinnsluverkefni sem farið hefur verið í á Íslandi, og snerist um myndatöku og samþættingu ljósmyndanna á móti GPS hnitum í kortagrunninum. Að auki þurfti að afmá öll andlit, og bílnúmer m.a.“

Sumarið 2015 fór myndabíllinn aftur af stað og enn á ný árið 2017. Sigríður segir að stefnt sé að því að senda ljósmyndabílinn í aðra hringferð um landið næsta sumar. „Þetta er sumarverkefni. Það verður að vera gott veður og bjart úti.“

Aðspurð segist Sigríður ekki vita til þess að Google hafi farið aftur af stað með sinn bíl eftir upphaflegar myndatökur þeirra 2013, og óvíst sé með framtíðaráætlanir leitarrisans í þeim efnum.

Þó að samkeppnin við Google sé hörð, þá er staða Já á upplýsingamarkaði hér á landi sterk. „Þegar við spyrjum í markaðskönnunum hvert fólk fer þegar það vantar upplýsingar um símanúmer, heimilisfang og afgreiðslutíma, þá nefna 86% Íslendinga já.is. Okkar sérstaða er að við erum staðbundin, og þekkjum markaðinn mjög vel. Við erum með fólk sem er sífellt að viðhalda réttum upplýsingum. Þú hringir ekki til Google ef þú sérð að upplýsingarnar þar séu rangar.“

500 þúsund vörur í vöruleit

Talið berst nú að nýjustu vöru Já.is, vöruleit á netinu þar sem finna má um 500 þúsund vörur í rúmlega 350 íslenskum netverslunum. „Íslensk smásala veltir um 460 milljörðum króna á ári. Þar af eru um 225 milljarðar í stórmörkuðum og dagvöru. Af þessum 460 milljörðum eru ekki nema um 3% sem fara í gegnum vefverslun, en til samanburðar er það hlutfall um 10% víða í Bandaríkjunum. Ísland er því langt á eftir þegar kemur að þessum hlutum,“ segir Sigríður.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar veltir netverslun á Íslandi tæplega níu milljörðum á ári, en netverslun Íslendinga 13 milljörðum í heildina. Einnig segir þar að á fyrri árshelmingi þessa árs hafi orðið 17% vöxtur í netverslun á meðan vöxtur í almennri smásölu hafi verið tæp 8%. Samkvæmt rannsóknum frá Gallup segjast 65% Íslendinga ætla að versla meira á netinu í framtíðinni.

Nýja vöruleitin er ekki fyrsta tilraun Já.is til að stuðla að aukinni netverslun Íslendinga. Árið 2017 bauð fyrirtækið upp á „smella og sækja“ þjónustu, sem tókst ekki eins vel og vonast var til. „Við fengum 70 fyrirtæki í samstarf, og til sölu voru 200 vörur og þjónustuatriði. Þetta átti að vera bylting, en hún tókst ekki, og við lærðum mikið á því. Við seldum samt ýmsa hluti, en vöruúrvalið var allt of lítið. Þetta varð aldrei STAÐURINN, eins og við vorum að vonast eftir. Núna hinsvegar virkjuðum við fólkið okkar, og bjuggum til teymi sem hafa verið að vinna að nýju lausninni allt þetta ár. Við erum afar stolt af útkomunni, og það verður áhugavert að sjá viðtökurnar.“

Hugmyndin að nýju vöruleitinni fæddist hjá forritara í fæðingarorlofi sem búið hafði til prufuútgáfu heima hjá sér, að sögn Sigríðar. „Þetta sýnir hvað fólkið sem vinnur hér hefur mikla ástríðu fyrir því sem það er að gera. Þróunin á vöruleitinni er svo afrakstur 10 mánaða hópavinnu þvert á deildir. Við höfum innleitt hjá okkur nýsköpunarhugsun- og menningu, sem hófst með nýsköpunardegi í fyrirtækinu þar sem starfsfólkið fór í gegnum aðferðafræði sem kennd er við Harvard-háskóla og kallast Next Loop módelið. Eftir þennan dag eigum við bunka af hugmyndum sem bíða þess að verða að veruleika. Ég sá líka eftir þessa vinnu að skipurit í fyrirtækjum virka frábærlega ef þú ert að hugsa um góðan rekstur. Þá er skýrt hvar ábyrgð liggur og hver fer með hvaða hlutverk. En skipurit geta á móti þvælst fyrir nýsköpun.“

Sendi óskalista til eiginmannsins

Sigríður segir að núna geti Íslendingar nálgast allar íslenskar netverslanir á einum stað. „Þú leitar að vöru, sérð svipaðar vörur, getur borið saman verð, sett vörur í verðvakt, skoðað lagerstöðu, búið til óskalista og deilt óskalistum. Ég er til dæmis búin að senda manninum mínum óskalista fyrir jólin sem ég bjó til á já.is,“ segir Sigríður brosir.

„Þó að við séum nýbúin að opna þjónustuna þá hafa bæst við 50 vefverslanir síðan þá, en við fórum af stað með 300 netverslanir. Núna erum við að fara að bæta öðrum 70 við. Af þessu má sjá að það er alveg ótrúleg flóra af netverslunum hér á landi.“

Framundan eru jólin, stærsti verslunarmánuður ársins. Sigríður bendir á hvernig vöruleit Já getur breytt hlutunum til hins betra. „Kennari hjá Yale-háskóla skrifaði grein sem heitir Deadweight Loss of Christmas, eða „Allratap jóla“. Þar sýndi hann fram á efnahagslegu sóunina við að gefa jólagjafir. Hann komst að því að 10-30% af verðmæti gjafanna færu í súginn því við værum ekki að gefa réttu gjafirnar. Ef við heimfærum það á íslenska markaðinn, og gefum okkur að 10% af samtals 80 milljarða króna verslun á Íslandi í nóvember og desember séu jólagjafir, þá erum við að sóa 800 – 2400 milljónum króna í jólagjafainnkaupunum. Við hjá Já leggjum okkar af mörkum til að eyða þessu allratapi með óskalistunum.“

En hvert er viðskiptamódelið á bakvið vöruleitina. Fær já.is hluta af söluandvirði varanna?

„Nei, viðskiptamódelið er það sama og á bakvið aðra leit hjá Já. Notandinn borgar ekki neitt, en við seljum auglýsingar sem birtast hjá leitarniðurstöðum. Með þessu skapast ýmis tækifæri, og við bjóðum netverslununum auglýsingapakka til að þær geti betur komið sínum vörum á framfæri.“

Hvernig gengur að selja auglýsingar, er þetta mikið hark?

„Auglýsingamarkaðurinn á Íslandi er auðvitað í mikilli samkeppni við erlenda aðila, eins og Google, Facebook og Amazon. Við erum hinsvegar allt öðruvísi fyrirtæki en hefðbundnu auglýsingamiðlarnir, þar sem við leggjum áherslu á lágt verð en marga auglýsendur. Hefðbundnu auglýsingafyrirtækin eru gjarnan með stór fyrirtæki í viðskiptum, og leggja upp úr birtingu markaðsherferða. Við leggjum meira upp úr langtímasamningum og árgjöldum.“

Þó að umskiptin hjá Já frá stofnun séu 100% stafræn eins og kom fram hér á undan, er þar bæði um innri og ytri vöxt að ræða. Sigríður segist líta svo á að leiðir til vaxtar séu tvær, nýsköpun og samruni við önnur fyrirtæki. „Við kortlögðum umhverfið í kringum okkur til að sjá hvaða fyrirtæki gætu passað okkur. Kjarnahæfni okkar er þekkingaröflun og vinna, gagnaöflun, gagnagreiningar og framsetning gagna. Þetta er ástæða þess að við keyptum Gallup á sínum tíma og Leggja.is í fyrra.“

Gallup er eins og Sigríður útskýrir, leiðandi fyrirtæki á Íslandi í markaðsrannsóknum og markaðsupplýsingum. „Þetta eru í raun tvö vörumerki. Annarsvegar Gallup sem sér um markaðs-, fjölmiðla- og mannauðsrannsóknir og ráðgjöf, en hinsvegar er það Markaðsgreining, en þar er haldið utan um sölutölur um smásöluverslun á Íslandi. Ég gæti til dæmis sagt þér nákvæmlega hve margar Pepsi max dósir seldust á landinu í síðasta mánuði.“

Leggja.is er eins og mörgum er kunnugt, þjónusta til að greiða í bílastæði. „Þetta er greiðsluapp sem leysir verkefni sem flestum finnst alveg ofboðslega leiðinlegt, að finna stöðumæli, borga og drífa sig aftur til baka áður en maður fær sekt.“

Sigríður segir að viðskiptavinir séu mjög ánægðir með lausnina, sem geti sparað pening, því aðeins er greitt fyrir þann tíma sem bílnum er lagt.

Leggja.is var áður í eigu Stokks, sem rekur m.a. smáforritin Alfreð og Lummuna. Einn af stofnendum Leggja.is, Hreinn Gústavsson, er núna vöru- og viðskiptaþróunarstjóri Já.

Annað nýtt verkefni sem Sigríður nefnir, er Gallup Torg, sem hún segir að sé algjör bylting þegar kemur að markaðsrannsóknum. „Við höfum sett öll gögn úr neyslu – og lífsstílskönnunum Gallup síðustu 20 árin í gagnagrunn, og gert þau leitanleg fyrir okkar viðskiptavini. Til dæmis þá gætirðu slegið inn orðinu Gleraugu, og þá sérðu á einu mælaborði þróun á gleraugnanotkun allan þennan tíma.“

Íslenskur spjallbotti á leiðinni

Enn annað verkefni sem er í vinnslu hjá Já er Vera. „Þetta er gervigreindarvera, íslenskur „spjallbotti“ sem getur hringt út í fólk og skilið það sem það segir. Vera gæti sinnt einföldum skoðanakönnunum til dæmis eða svarað einföldum spurningum hjá fyrirtækjum. Vonandi getum við sett Veru í loftið á næstu mánuðum.“

Verkefnið fellur vel að málverndarstefnu Já en fyrirtækið er einn af stofnaðilum Almannaróms, miðstöðvar máltækniáætlunar til ársins 2022. „Það er svo mikilvægt að íslensk tæknifyrirtæki vinni með íslenskuna. Það eru mannréttindi að geta hugsað og talað íslensku þegar kemur að tækninni.“

Eins og sagði hér á undan þá hafa tekjur félagsins vaxið að meðaltali um 10% á ári frá stofnun. Sigríður segir að veltan verði um 1,5 milljarðar á þessu ári, og vaxi um 4-5% milli ára. „Sumir tekjustofnar eru að vaxa en aðrir að dragast saman á móti. Óvissan í atvinnulífinu hefur áhrif á okkur, bæði væntanlegar kjaraviðræður og gengismál. Launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn hjá okkur, og við höfum verið í hagræðingaraðgerðum. Þegar stærsti kostnaðarliðurinn hækkar umfram það sem hægt er að velta út í verðlagið, þá verður að bregðast við, eigi reksturinn að vera góður.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK