Fimm með mestan hluta teknanna

Fram kemur í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands að fimm aðilar hafi skipt á milli sín þremur fjórðu af auglýsingatekjum fjölmiðla á síðasta ári, en íslenskir auglýsendur vörðu á því ári rúmlega 14 milljörðum króna til kaupa á auglýsingum innanlands.

„Tekjur innlendra fjölmiðla af birtingu auglýsinga drógust lítillega saman frá fyrra ári, eftir nær stöðugan vöxt síðustu ár. Auglýsingatekjur fjölmiðla eru enn um fjórðungi lægri en þær voru þegar best lét árið 2007, eða laust innan við fjórum og hálfum milljarði króna lægri reiknað á föstu verðlagi. Fréttablöð eru mikilvægasti auglýsingamiðillinn hér á landi, en í þeirra hlut falla fjórar af hverjum tíu krónum af auglýsingatekjum,“ segir í fréttatilkynningu frá Hagstofunni.

Þar segir enn fremur að auglýsingamarkaðurinn hér á landi skeri sig í veigamiklum atriðum frá því sem gerist á hinum Norðurlöndunum og víðar þar sem hljóðvarp og fréttablöð taka til sín stærri hluta af auglýsingatekjum á sama tíma og hlutur vefmiðla sé rýr miðað við það sem víðast tíðkast. Samþjöppun á íslenskum auglýsingamarkaði sé enn fremur veruleg þegar litið sé til dreifingar auglýsingateknanna milli rekstraraðila.

Tölur Hagstofunnar eru byggðar á upplýsingum frá 108 innlendum aðilum sem að meðaltali höfðu 130 milljónir í auglýsingatekjur árið 2017. Þá segir að tekjudreifingin hafi þó verið verulega ójöfn sem einkum sjáist á því að helmingur þeirra hafi haft innan við 20 milljónir í tekjur af flutningi og birtingu auglýsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK