Sýn lækkar afkomuspá sína á ný

Höfuðstöðvar Sýnar við Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Sýnar við Suðurlandsbraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýn, móðurfélag Vodafone, Stöðvar 2 og Vísis, hefur lækkað afkomuspá sína fyrir árið 2018 og horfur fyrir næsta ár. Tilkynnt er um þessa niðurstöðu til Kauphallarinnar eftir yfirferð auglýsingatekna og áskriftasölu í nóvember.

Er gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins (EBITDA) lækki um 150 milljónir miðað við það sem áður var kynnt og verði 3.450 milljónir á þessu ári. Í nóvember hafði áður verið gefin út afkomuviðvörun og var talan þá lækkuð úr 4.000 milljónum niður í 3.600 milljónir.

Ástæður lækkunarinnar núna er hærri kostnaður en gert hafði verið ráð fyrir sem tengist fjarskiptakerfum og dagskrárkostnaði. Segir að unnið sé að því innan fyrirtækisins að lækka kostnað sameinaðs fyrirtækis.

Þá er gert ráð fyrir að tekjur verði lægri en áætlað var, meðal annars vegna lægri auglýsingasölu og sölu sjónvarpsáskrifta í nóvember en gert var ráð fyrir. Rekur fyrirtækið aðstæðurnar til efnahagsaðstæðna og harðrar samkeppni á markaðinum. Þá var viðskiptavinavelta og sölukostnaður á fjarskiptamarkaðinum einnig umfram áætlanir í september og október.

Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður næsta árs verði 3,9 til 4,4 milljarðar í stað 4,6 til 5 milljarðar samkvæmt fyrri áætlun. Þá er frestun á kostnaðarsamlegð upp á 200 milljónir sem gert var ráð fyrir á næsta ári, en ljóst er að mun ekki koma til fyrr en árið 2020. Þá er veiking krónunnar talin hafa 350 milljóna króna neikvæð áhrif á kostnað félagsins á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK