Gamla Eimskip greiði 162 milljónir í bætur

Gámar á athafnasvæði Eimskips og Samskipa.
Gámar á athafnasvæði Eimskips og Samskipa. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt félagið A1988 ehf., sem áður hét Eimskipafélag Íslands, til að greiða Samskipum um 162 milljónir króna í skaðabætur, auk 42 milljóna króna í málskostnað, vegna samkeppnisbrota. Dómurinn féll í gær. 

Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2002 þegar Samkeppnisstofnun (síðar Samkeppniseftirlitið) hóf rannsókn á ætluðum brotum Eimskipafélags Íslands á árunum 2001 til 2002, að því er kemur fram í dóminum.

Í október árið 2011 höfðuðu Samskip mál vegna meintra samkeppnisbrota gamla Eimskips. Málið snerist um meinta ólöglega atlögu félagsins að Samskipum á flutningamörkuðum á árunum 1999 til 2002.

„Málshöfðunin sem héraðsdómur hafði til úrlausnar er grundvölluð á ólögmætum aðgerðum sem Hf. Eimskipafélag Íslands beitti Samskip á árunum 1999-2002 og sektuðu samkeppnisyfirvöld Eimskip fyrir ólögmætar aðgerðir félagsins. Málið nú var höfðað gegn félaginu A1988 hf. en eftir efnahagshrunið leitaði Eimskip nauðasamninga og var nafni félagsins breytt í A1988 hf. á hluthafafundi félagsins þann 8. september sama ár,“ segir í tilkynningu frá Samskipum.

Þar kemur fram að Samskip höfðaði málið til að sækja skaðabætur en upprunalega hafi gamla Eimskip verið dæmt til 230 milljóna króna stjórnvaldssektar.

„Brotin fólust í umfangsmiklum aðgerðum Eimskips þar sem félagið misnotaði markaðsráðandi stöðu sína gegn Samskipum, m.a. með því að gera viðskiptamönnum sínum bæði ólögmæt tilboð og semja við þá um ólögmæt einkakaup eða tryggðarafslætti,“ segir í tilkynningunni.

A1988 ehf. byggði kröfu sína um sýknu á því að krafa Samskipa hafi beinst ranglega gegn félaginu og því bæri að sýkna það vegna aðildarskorts, að því er segir í dóminum. Í kröfu félagsins kemur einnig fram að það verði m.a. sýknað vegna tómlætis. 9-12 ár hafi liðið frá því að ætlað tjón varð þangað til Samskip gerðu fyrst kröfu um bætur. 

Í tilkynningu Samskipa kemur fram að „nafnabreytingar Eimskips fái ekki haggað þeirri staðreynd að flutningastarfsemi félagsins á fyrri kennitölu þess hafi sannanlega flust, með öllum réttindum og skyldum, yfir til hinnar nýju kennitölu A1988 hf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK