Hyggst greiða lánið í gegnum jöfnunarsjóð

Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Íslandspósts hyggst endurgreiða fyrirhugað lán ríkissjóðs til fyrirtækisins upp á einn og hálfan milljarð króna, til þess að hægt verði að tryggja rekstur þess til loka næsta árs, með greiðslu framlags úr jöfnunarsjóði alþjónustu.

Þetta kemur fram í svari Íslandspósts við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis um það hvernig lánið verði greitt til baka.

Fram kemur að þegar hafi verið sótt um slíkt framlag til Póst- og fjarskiptastofnunar, sem hefur jöfnunarsjóð alþjónustu í sinni vörslu, vegna ófjármagnaðrar alþjónustubyrðar á árunum 2013-2017. Þar segir enn fremur að sjóðurinn standi engan veginn undir kröfu Íslandspósts.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, staðfestir í samtali við mbl.is að stofnunin hafi fengið ósk um slíkt framlag frá Íslandspósti og að málið sé í stjórnsýslulegu ferli.

Ekkert fjármagn er til staðar í jöfnunarsjóði alþjónustu en ekki er um að ræða sjóð sem safnað er í að staðaldri. Komi hins vegar fram ósk um framlag úr sjóðnum er sett í gang ákveðið ferli sem þarf meðal annars að fara fyrir Alþingi enda kallar það á breytingar á skattalögum svo innheimta megi sérstakt gjald til þess að fjármagna framlagið úr sjóðnum.

Gjaldið væntanlega að mestu frá Íslandspósti

Ferlið getur tekið allt að tveimur árum enda er jöfnunarsjóðurinn ekki hugsaður til þess að bregðast við neyðartilfellum heldur einungis að stuðla að ákveðnum jöfnuði í tilfelli fyrirtækja sem þurfa að sinna alþjónustu. Gjaldið er þá innheimt af fyrirtækjum í viðkomandi geira, í þessu tilfelli af póstþjónustufyrirtækjum sem sinna alþjónustu.

Fyrir vikið má gera ráð fyrir að verði gjaldið innheimt til þess að fjármagna jöfnunarsjóðinn í því skyni að greiða framlagið til Íslandspósts sem fyrirtækið hyggst nota til þess að greiða til baka lánið frá ríkissjóði mun það væntanlega leggjast að langstærstu leyti á Íslandspóst sjálfan vegna stærðar fyrirtækisins í samræmi við ákvæði laga um póstþjónustu. Þar segir:

„Jöfnunargjaldið skal innheimt af rekstrarleyfishöfum í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á sviði alþjónustu. Með bókfærðri veltu er átt við heildarrekstrartekjur sem viðkomandi rekstrarleyfishafi hefur af póststarfsemi sem fellur undir ákvæði um alþjónustu.“

Þetta myndi þýða að Íslandspóstur þyrfti að finna leiðir til þess að fjármagna gjaldið þegar þar að kæmi til þess að fjármagna framlagið til fyrirtækisins til þess að greiða lánið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK