Már: „Engin ástæða til að hafa áhyggjur“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/​Hari

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagðist engar áhyggjur hafa af væntanlegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að losa um fjármagnshöft enn frekar með því að heimila aflandskrónueigendum að losa aflandskrónueignir sínar að fullu. Sagði hann Seðlabankann hafa nóg „púður í tunnunni“ til að mæta mögulegu útstreymi fjármagns.

64 milljarðar gætu farið út á nokkrum vikum

Már kynnti í dag vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum. Við það tækifæri fór hann yfir hvernig Seðlabankinn horfði á stöðuna fram undan.

Benti Már á að aflandskrónur væru núna um 84 milljarðar. Þar af væru 37 milljarðar bundnir á reikningum í bönkum eða hjá Seðlabankanum. Þetta væru fjármunir sem myndu losna ef lögin verða samþykkt. Þá væru 40 milljarðar í ríkisbréfum, þar af um 27 milljarðar í bréfum sem væru með gjalddaga fyrir lok febrúar. Til viðbótar væru um 8 milljaðrar í skírteinum og hlutabréfum.

770 milljarða gjaldeyrisforði

Sagði hann ólíklegt að þessir 8 milljarðar færu á hraða siglingu strax og þá væru fjármunir í lengri ríkisbréfum bundnir lengur. „Samtals 64 milljarðar sem gætu þá farið út á nokkrum vikum,“ sagði Már og bætti við að það væri þó alls ekki víst að það myndi gerast.

Til að verjast mögulegu útstreymi benti hann á að Seðlabankinn ætti 770 milljarða gjaldeyrisforða. „Við ráðum vel við það að standa við það sem við segjum hér. Við munum ekki láta þennan fortíðarvanda verða til þess að lækka gengi krónunnar og munum beita gjaldeyrisinngripum eins og þarf til að það verði raunin,“ sagði Már.

Ekki að draga línu í sandinn

Már var spurður hvort bankinn væri með þessu að breyta um aðferðafræði og myndi nú verja ákveðið gengi í stað þess að grípa inn í þegar ákveðin spíralmyndun væri í gangi. Már svaraði því með skýru „nei“ og bætti við: „Ekki að draga línu í sandinn og segja að við munum verja gengið hvað sem það kostar.“

Sagði hann að bankinn myndi ekki láta gengi krónunnar veikjast vegna útstreymis aflandskróna. Það ætti eftir að koma í ljós hversu mikið inngripið gæti verið, meðal annars vegna innflæðis. Þannig gæti bankinn verið virkari innan dags þegar talið er að gengið samræmist ekki raungenginu eða að komið sé að einhvers konar spíral. Grunnstefnan væri óbreytt. Að láta ekki skammtímahræringar hafa áhrif á krónuna, sérstaklega ekki aflandskrónurnar sem Már kallar fortíðarvandann.

„Engar áhyggjur“

Már var spurður út í áhyggjur markaðarins vegna fyrirætlananna um afnám haftanna. Gaf hann ekki mikið fyrir slíkt. „Engin ástæða til að hafa áhyggjur og markaðurinn ætti líka að hætta að hafa áhyggjur,“ sagði Már. Sagði hann peningastefnunefnd hafa lýst einróma stuðningi við þau áform sem hann hefði kynnt.

Lét hann ekki þar við sitja heldur ítrekaði skilaboð sín um að ekki ætti að hafa áhyggjur. „Eftir að við erum búin að segja þetta þá höfum við engar áhyggjur af því að markaðurinn hafi af þessu áhyggjur enda á hann ekki að hafa af þessu neinar áhyggjur því erum búin að tala mjög mjög skýrt. Það er engin stefnubreyting að öðru leyti.“

„Feykilega mikið púður í tunnunni“

Árin 2016 og 2017 átti Seðlabankinn í beinum viðskiptum vegna kaupa á aflandskrónum, meðal annars með útboði. Már sagði að það hefði verið mat bankans að nú á lokaskrefum afnámsins væri eðlilegt að þessi viðskipti færu í gegnum viðskiptabankana og gjaldeyrismarkaðinn eins og önnur gjaldeyrisviðskipti. „Við höfum feykilega mikið púður í tunnunni,“ sagði hann og vísað þar aftur til gjaldeyrisforðans og möguleika Seðlabankans að grípa inn í sveiflur á markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK