Málið komið inn á borð VR

AFP

„Við erum komin með málið inn á borð til okkar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is vegna frétta af fjölda uppsagna hjá flugfélaginu WOW air.

Flugfélagið hefur sagt upp 111 fastráðnum starfsmönnum þvert á deildir og flugvélum félagsins verður fækkað úr 20 í 11 samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn verða enn fremur ekki endurnýjaðir að svo stöddu. Samtals nær uppsögnin til 350 starfsmanna þegar allir eru taldir með.

„Það er voðalega lítið hægt að tjá sig um málið á þessu stigi en ég get staðfest að það er komið inn á okkar borð,“ segir Ragnar enn fremur spurður um umfang uppsagnanna fyrir félagsmenn VR. 

„Við erum með trúnaðarmenn sem eru náttúrulega bara að vinna í þessu og við höfum verið tilbúin með aðgerðaáætlun ef til hópuppsagna kæmi hjá okkur í VR. Það er of snemmt að segja eitthvað til um þetta núna.“

Meðal annars þurfi að meta á hvaða forsendum uppsagnirnar séu. Hvort þær séu til dæmis samhliða því að einhver lending sé að koma í framtíðarrekstur WOW air eða hvort um sé að ræða einhverja milliaðgerð.

„Það eru í rauninni þær fréttir sem við bíðum eftir.“

Vignir Örn Guðnason, formaður Íslenska flugmannafélagsins (ÍFF), segir að engum fastráðnum félagsmanni félagsins hafi verið sagt upp störfum. Hins vegar svaraði hann ekki fyrir flugmenn sem ráðnir hefðu verið sem verktakar í gegnum erlendrar starfsmannaleigur.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK