Markaðssetning sumra lyfja eins og þróunaraðstoð

Hrund Rúdólfsdóttir forstjóri Veritas.
Hrund Rúdólfsdóttir forstjóri Veritas. mbl.is/Hari

Sú staðreynd að meirihluti allra lyfjabirgða Íslendinga er geymdur í vöruhúsi í miðbæ Garðabæjar er líklega ekki á allra vitorði en er engu að síður sannleikur. Birgðirnar eru geymdar í húsakynnum lyfjadreifingarfyrirtækisins Distica, dótturfyrirtæki Veritas, sem Hrund Rudolfsdóttir veitir forstöðu.

Eftir að blaðamaður hafði komið sér vel fyrir á skrifstofu Hrundar í Veritas við Hörgatún í Garðabænum lék honum fyrst forvitni á að vita hvort fyrirtækið sæi framtíðina fyrir sér áfram þarna í Garðabænum eða á einhverjum allt öðrum stað.

„Þetta er töluverð starfsemi hjá okkur í dag og svona atvinnustarfsemi á í sjálfu sér ekki heima á þessum stað, í miðbæ Garðabæjar, til lengri tíma. Á sama tíma gerum við okkur grein fyrir því að þetta er mikilvæg lóð fyrir Garðabæ,“ segir Hrund og bætir við að ekki sé ólíklegt að einhvern tíma verði fundin ný staðsetning fyrir Veritas-samstæðuna. Þarfagreining standi yfir fyrir öll dótturfyrirtækin, horft sé til líklegs vaxtar hverrar einingar fyrir sig. Þar komi húsnæðismálin einnig til skoðunar enda eru fyrirtækin á fjórum stöðum í dag. Akkur væri í því að koma starfseminni allri undir eitt þak, eða a.m.k. færri. „Svo á borgarlínan að fara hér framhjá, sem minnkar ekki mikilvægi lóðarinnar. En okkur líður ákaflega vel hér og enn er ekki farið að þrengja verulega að okkur. Hins vegar erum við farin að hafa áhyggjur af þrengslum í vöruhúsinu fyrir aðrar vörur en lyf í Suðurhrauni, enda hefur fyrirtækið verið í miklum vexti í þeim hluta. Það sama má segja um Stoð í Trönuhrauni.“

Auk Distica samanstendur Veritas af stoðtækjafyrirtækinu Stoð, sem Veritas festi kaup á sl. haust, lyfjaheildsölunni Vistor, sölu- og markaðsfyrirtækinu Artasan og lækningatækjafyrirtækinu Medor. Að auki hefur fasteignum fyrirtækisins verið komið fyrir í systurfélagi. Það sama má segja um einstakar fjárfestingar félagsins. „Við seldum reyndar stærstu fjárfestinguna fyrr á þessu ári, 12% hlut í Festi. Við fylgdum þar fjárfestahópi sem við tengdumst og N1 keypti allan hlutinn. Sú fjárfesting var ótengd kjarnastarfsemi okkar og í raun meira á forræði aðaleiganda Veritas, Hreggviðs Jónssonar.“

Keyptu lítil sprotafyrirtæki

Hrund segir að töluvert sé leitað til fyrirtækisins hvað fjárfestingar varðar. „Við erum almennt ekki í sprotafyrirtækjum en gerðum samt undantekningu á því og fjárfestum nýlega í litlu sprotafyrirtæki sem heitir Lumina. Það auðveldar læknum sjúkraskráningu og eykur öryggi við skráninguna.“

Spurð nánar út í starfsemi dótturfyrirtækjanna fimm segir Hrund að Artasan sérhæfi sig í samheitalyfjum, lausasölulyfjum og heilsuvöru og hefur að hennar sögn verið í mikilli sókn. „Artasan hefur bætt við sig heilsuvörum, sem falla vel að innviðum okkar og dreifineti. Það er ofboðslegt framboð af vörum í þessum heilsugeira og við leggjum mikla áherslu á gæðavörur. Reynsla okkar úr lyfjageiranum gerir okkur auðveldara fyrir að greina og finna réttu vörurnar.“

Medor sérhæfir sig í lækningatækjum, sem fara mikið inn á spítalana. „Þetta er allt frá einföldum rekstrarvörum upp í háþróuð lækningatæki og -tól. Við sjáum svo um uppsetningu og eftiráþjónustu við tækin. Medor selur líka mikið inn á rannsóknarstofur, bæði efni og tæki.“

Distica sjái hins vegar um innflutning, vöruhúsastarfsemi og dreifingu fyrir samstæðuna og aðra viðskiptavini.

Stoð er „nýjasta barnið“ í hópnum, eins og Hrund orðar það. „Sú starfsemi er að sumu leyti nýlunda fyrir okkur þar sem Stoð er í smásölu. Það selur stuðningstæki, hjólastóla og vörur til eldri borgara og fatlaðra m.a. Fyrirtækið býður upp á mikla sérsmíði og þjónustu en það er líka nýtt fyrir okkur að standa í eigin framleiðslu.“

Annað sem er nýtt við Stoð er að félagið er með tvær verslanir í Danmörku. „Þó að við séum í miklum samskiptum við erlendu birgjana okkar, sem eru á bilinu 2-300 talsins, höfum við fram að þessu ekki verið með starfsemi erlendis.“

Eins og fyrr sagði stendur yfir þarfagreining fyrir öll fyrirtæki Veritas, þar á meðal Stoð. „Það er margt spennandi hægt að gera með Stoð. Öldrunarmarkaðurinn er einhver mest vaxandi markaður í heimi. Svo er lífsstíllinn að breytast og fólk er virkara fram eftir aldri. Við teljum okkur geta styrkt og stækkað starfsemi Stoðar töluvert mikið, hvort sem það verður á sviði framleiðslu eða almenns vöruframboðs.“

Hrund segir að Stoð veiti mikla persónulega þjónustu. „Þetta er skemmtilegur og gefandi bransi.“

Meirihluti allra lyfjabirgða Íslendinga er geymdur í vöruhúsi í miðbæ ...
Meirihluti allra lyfjabirgða Íslendinga er geymdur í vöruhúsi í miðbæ Garðabæjar. Birgðirnar eru geymdar í húsakynnum lyfjadreifingarfyrirtækisins Distica, dótturfyrirtæki Veritas, sem Hrund Rudolfsdóttir veitir forstöðu. mbl.is/Hari

Starfað í einkeypisumhverfi

Talið berst nú að því einkeypisumhverfi af hendi hins opinbera sem lyfjaheildsölum á Íslandi er búið, en lyfsala stendur undir meirihluta af heildartekjum Veritas-samstæðunnar, sem eru rúmir 17 milljarðar á ári. Í umhverfinu er víða pottur brotinn að sögn Hrundar. Það að vinna í umhverfi þar sem hið opinbera setur umgjörð, hefur eftirlit og er stærsti – og stundum eini – kaupandinn geti verið snúið. „Það er allt í lagi ef ríkið er sanngjarnt og heiðarlegt í sinni aðferðafræði en stundum hefur okkur þótt skorta á skilning á aðstæðum.“

Hrund lýsir því hvernig ríkið hafi ákveðið árið 2004 að kaupa lyf af heildsölum samkvæmt meðaltalsverði á Norðurlöndum. Í hruninu árið 2008 hafi syrt í álinn þegar ríkið ákvað að ganga enn lengra hvað varðar S-lyfin svokölluðu, lyfin sem oftast eru gefin á sjúkrahúsunum og eru gjarnan þau dýrustu og þyngstu í lyfjakaupum landsmanna. „Þá var ákveðið að miða við lægsta verð á Norðurlöndum.“

Hrund segir að lögmál hagfræðinnar eigi ekki við í umhverfi íslenskra lyfjaheildsala. „Það er skrýtið að vera að selja vöru sem kaupandinn, í þessu tilfelli ríkið, ákveður sjálfur verðið á. Þetta er mjög langt frá eðlilegum og fullkomnum markaði eins og hann er skilgreindur í hagfræðinni.“

Ísland er jafnframt örmarkaður, að sögn Hrundar, og lyfjaframleiðendur flokka landið í „minnsta forgang“, að hennar sögn. „Er í ljósi þessa eðlilegt að kalla hér eftir lægsta lyfjaverði á Norðurlöndum?“ spyr Hrund. „Við höfum eins og önnur íslensk fyrirtæki þurft að fylgja launaþróun í landinu, og erum með mjög vel menntað fólk. Við höfum enga möguleika á að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið, enda ráðum við ekki verðinu, heldur ríkið,“ útskýrir Hrund.

Annað sem geri hlutina enn verri er að lyfjaverðið er háð gengi erlendra gjaldmiðla og breytist mánaðarlega samkvæmt því. „Þannig að undanfarið, þegar krónan hefur verið í einhverju sínu sterkasta gildi, höfum við þurft að selja jafnmikið eða meira fyrir lægra verð án þess að nein leiðrétting komi til.“

Hrund segir að reyndar sé sumt í umhverfinu ekki ákvarðað í krónutölu eða slíku heldur sé ákveðin umbun gefin fyrir ákveðin verk. „Sem dæmi um þau viðmið sem við vinnum eftir eru þau sem lögð voru til grundvallar í breytingu lyfjalaga árið 2004. Við höfum ekki fengið hið opinbera til að endurskoða það þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir þar um. Mér þætti gaman að sjá ef ríkisrekstur væri rekinn með sömu krónutölu og árið 2004.“

Fyrirtækjum meinað að sameinast

Hrund er líka gagnrýnin á Samkeppniseftirlitið í þessu samhengi og segir skorta á skilning á markaðnum. „Íslenskum fyrirtækjum er meinað að sameinast og hagræða svo þau verði ekki of stór fyrir íslenskan markað. Það er alltaf litið á íslenska markaðinn sem lokað kerfi, en svo er ekki. Er ríkið eini aðilinn sem ekki hefur heyrt af Alibaba og Amazon?“

Ennfremur skjóti það skökku við að hið opinbera sjálft skuli ætla sér að sækja tilboð frá hinum stóra heimi í lyf og hvers kyns hluti aðra. „Þá er það spurningin: Hvernig ætlarðu að skilgreina markaðinn? Ef mér eða öðrum er ætlað að keppa við risafyrirtæki t.d. í Skandinavíu, þá verð ég að geta brugðist við og hagrætt. Þú getur ekki bæði étið kökuna og átt hana. Ef farið verður með bestu bitana úr landi, eins og ríkið virðist ætla að gera hvað lyfjakaup varðar, þá mun atvinnustarfsemin deyja hér innanlands ef hún fær ekki að hagræða. Það verður að hugsa þetta til enda.“ Hún segir að einnig verði að hugsa um sjúklingana, hvernig lyfjaframboði verði háttað þvert á markaðinn varðandi bæði ný og gömul lyf. Einnig séu frumlyfjafyrirtækin að sinna lyfjagát, öryggislager og fræðslu varðandi rétta notkun á lyfjunum til að tryggja gæði og öryggi fyrir sjúklinga. „Það er ofboðslega mikil skammsýni fólgin í þessu. Ég vil líka vekja athygli á því að þetta á ekki bara við um lyf, heldur öll opinber útboð, s.s. tölvubúnað, bíla o.s.frv.“

Spurð hvort sala dótturfyrirtækja á stoðtækjum og heilsubótarvörum sé hugsuð til að vega upp á móti framlegðinni úr lyfjaheildsölunni játar Hrund því. „Það lifir enginn á því í dag að selja bara lyf. Framlegðin í greininni er ekki nægjanleg og það væri líka ofboðsleg áhætta í því fólgin. Bæði gengisþróun og ákvarðanir stjórnvalda spila þar inn í.“

Hrund ítrekar hve mikil þekking búi í Veritas og erfitt sé að byggja upp slíkt fyrirtæki frá grunni með þeim gæðaferlum sem þar séu fyrir hendi. „Við flytjum inn 40-50% af öllum lyfjum landsins og dreifum fyrir enn fleiri. Í gegnum okkar lager fara 65% af öllum lyfjalager landsins þannig að við gerum okkur grein fyrir ábyrgðinni sem á okkur hvílir.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir