Fjárfesta í WOW fyrir 9,3 milljarða

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air.
Skúli Mogensen, forstjóri Wow air. mbl.is/RAX

Indigo partners og Wow air hafa náð samkomulagi um að Indigo fjárfesti í WOW air fyrir allt að 75 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 9,3 milljörðum íslenskra króna. Þetta er þó enn háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem ekki er fulllokið. Einnig eru settir aðrir fyrirvara við samkomulagið. Greint er frá þessu á vefsíðu Wow air.

Fram kemur í tilkynningunni að „þegar árangursríkri áreiðanleikakönnun ljúki muni félögin vinna að því að ljúka fjárfestingunni.“ Þá muni Indigo kaupa einhver hlutabréf í WOW air í gegnum samkomulag um hlutabréfakaup, en bréfin verða í félagi sem Indigo munu stýra ásamt öðrum hluthöfum WOW air. Þess má geta að Skúli Mogensen er einn eigandi WOW air í dag. Þá mun Indigo leggja WOW air til forgangslán til að styðja við endurreisn félagsins. Nemur upphæð lánsins 75 milljónum dala, eða um 9,3 milljörðum íslenskra króna.

Fallið frá kauprétti og skuldabréf af skráðum markaði

Fjárfestingin er meðal annars háð samþykki skuldabréfaeigenda WOW air, en fram kemur að farið sé fram á skilmálabreytingu bréfanna. Verða þeir meðal annars að falla frá öllum ákvæðum sem heimila gjaldfellingu skuldabréfanna. Atkvæðagreiðslu skuldabréfaeigenda lýkur 17. janúar. Þá kemur jafnframt fram að ef skuldabréfaeigendur gefi loforð fyrir skilmálabreytingu gildi það til 28. febrúar, eða þangað til samningar hafi verið fullkláraðir. 

Þá kemur fram í skilmálum fjárfestingarinnar, sem sendir hafa verið á alla eigendur skuldabréfa í WOW air að fallið verði frá öllum kauprétti sem samið hafði verið um í síðasta skuldabréfaútboði félagsins. Til viðbótar mun félagið ekki ábyrgjast að skuldabréfin verði skráð á opnum markaði eins og var í síðasta útboði.

Til viðbótar er samkvæmt þessum breytingum lagt til að lengja bréfin úr þremur árum í fimm ár.

Í gær var greint frá því að WOW air hefði sagt upp 111 fastráðnum starfsmönnum auk þess sem endurskipulagning félagsins náði til um 240 annarra lausráðinna starfsmanna og verktaka. Þá var greint frá því að fækkað yrði í flota félagsins og hætt með breiðþotur.

Í fréttatilkynningu frá WOW air er ítrekað sérstaklega að fjárfestingin sé háð áreiðanleikakönnun og öðrum skilyrðum. Meðal annars þeim sem tengjast ákvæðum skuldabréfa félagsins sem skráð eru á markað í kauphöllinni í Stokkhólmi og vísað er til hér að ofan. Tekið er fram að vinna milli WOW air og Indigo um að uppfylla skilyrðin sé í gangi, en að vinnunni sé ekki lokið.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir