Hópuppsagnir gætu haft áhrif á stöðugleika

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er hlutfall starfandi af mannfjölda 78,9% og …
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er hlutfall starfandi af mannfjölda 78,9% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli er 2,9%. mbl.is/​Hari

Mikill stöðugleiki ríkir á íslenskum vinnumarkaði en hópuppsagnir kunna að setja strik í reikninginn. Þetta gefa niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar til kynna sem fjallað er um í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Þar segir að töluverðar sveiflur séu eftir mánuðum og árstíðum eins og eðlilegt er, en sé litið á 12 mánaða meðaltöl má sjá að sumar stærðir breytast ekki mikið. Það á t.d. við um atvinnuþátttöku, vinnutíma og atvinnuleysi.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókninni var hlutfall starfandi af mannfjölda 78,9% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,9%. Atvinnuþátttaka í október í fyrra var 81,9% og 81,2% í ár, þannig að þróunin hefur verið niður á við frá síðasta ári. Sé litið á 12 mánaða meðaltal jókst atvinnuþátttaka stöðugt frá upphafi ársins 2015 fram til vorsins 2017.

Fyrsta áfallið í langan tíma

Hópuppsagnir Wow air sem tilkynnt var um í gær eru þær stærstu sem sést hafa lengi. 111 fastráðnum starfsmönnum var sagt upp og munu samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn ekki verða endurnýjaðir að svo stöddu en þar er um að ræða rúmlega 200 manns. Auk þess var 237 starfsmönnum þjónustuaðila WOW í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Airport Associates, sagt upp í lok nóvember. Í Hagsjánni segir að enn sé ekki vitað hvort uppsagnir og afleiðingar þeirra ná til fleiri starfsmanna, en alls er þarna um u.þ.b. 550 manns að ræða ef allt fer á versta veg.

Miðað við tölur Hagstofunnar væri atvinnuleysi 3,1% væru þessir starfsmenn taldir með en ekki 2,9% eins og staðan var í október. Að sama skapi gæti skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar orðið 2,7% en ekki 2,4% ef allir þessir einstaklingar færu á atvinnuleysisskrá. 

Vinnuvikan 38,9 stundir

Lengd vinnutíma var sú sama í október og fyrir ári, 38,9 stundir. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn í október næstum sá sami og var í sama mánuði í fyrra og hefur hann verið mjög stöðugur á þann mælikvarða allt þetta ár.

Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi verið nær óbreytt lengi eftir að það minnkaði stöðugt fram á mitt síðasta ár. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða miðað við mælingar Hagstofunnar var 2,8% í október og hefur sú tala verið nær óbreytt í rúmt ár og var einnig 2,8% í október í fyrra. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi var 2,2% nú í október, og var einnig 2,2% í október í fyrra.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum aukist um 1,3%

Sé litið á skráð atvinnuleysi eftir svæðum kemur upp svipuð mynd og verið hefur lengi. Atvinnuleysi meðal kvenna er meira en karla alls staðar nema á Vestfjörðum. Atvinnuleysi er enn mest á Suðurnesjum og á það við um bæði kyn. Þar á eftir koma höfuðborgarsvæðið og Norðurland eystra í svipaðri stöðu. Staðan hvað atvinnuleysi varðar er best á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum.

Breytingin á skráðu atvinnuleysi er mismunandi eftir svæðum. Sé litið á breytinguna síðustu 2 ár, frá október 2016, sést að hlutfall atvinnuleysis hefur aukist alls staðar nema á Austurlandi og Vestfjörðum. Langmesta aukningin er á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi hefur aukist um 1,3 prósentustig.

Fá merki um að vinnumarkaðurinn sé að gefa eftir

Í Hagsjánni kemur fram að ef hópuppsögn WOW air er frátalin sýna tölur margra síðustu mánaða fá merki um að sterkur vinnumarkaður sé að gefa eftir. Atvinnuþátttaka hefur verið stöðug og það sama má segja um vinnutíma. Atvinnuleysi hefur verið í lágmarki og virtist frekar vera að þokast upp á við, en síðan hafa auðvitað orðið mikil tíðindi í þessum efnum.

Þótt því sé spáð að hagvöxtur fari eitthvað minnkandi á næstu árum mætti ætla að vinnumarkaðurinn héldi sterkri stöðu sinni áfram. Þessi síðasta hópuppsögn kemur út úr sérstökum aðstæðum og tæplega má búast við að fleira í þessum dúr komi í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK