137 milljóna gjaldþrot Argentínu steikhúss

Argentína var um áraskeið vinsælt steikhús í miðbænum.
Argentína var um áraskeið vinsælt steikhús í miðbænum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skiptafundur þrotabús BOS ehf., fyrrverandi rekstrarfélags Argentínu steikhúss, verður haldinn á skrifstofu skiptastjóra 21. desember kl. 10:00 og til stendur að ljúka skiptum þá. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.

Kröfur í þrotabúið nema rúmlega 137 milljónum króna og talið er að lítið eða ekkert fáist upp í þær kröfur. 

Argentínu steikhúsi var lokað í apríl síðastliðnum og greint var frá því í fjölmiðlum að hluti starfsfólks hefði ekki fengið greidd laun vegna marsmánaðar. Þá höfðu ekki verið greidd iðgjöld af launum starfsfólks frá því í maí árið 2017. Um tuttugu manns úr starfshópnum leituðu til stéttarfélagsins Eflingar í kjölfarið.

BOS ehf. tók við rekstri Argentínu í október á síðasta ári eftir að fyrrverandi rekstrarfélag veitingastaðarins, Pottur ehf., varð gjaldþrota í mars á sama ári. Pottur ehf. var í eigu Kristjáns Þórs Sigfússonar sem var annar eigandi Argentínu frá árinu 1990. Lýstar kröfur í vegna gjaldþrotaskipta Potts námu 86 milljónum króna en engar greiðslur fengust upp í þær kröfur.

Björn Ingi Hrafnsson var orðinn skráður eigandi og framkvæmdastjóri BOS ...
Björn Ingi Hrafnsson var orðinn skráður eigandi og framkvæmdastjóri BOS ehf. í lok síðasta árs. mbl.is/Árni Sæberg

Endurskoðunarfyrirtækið KPMG stofnaði BOS ehf. 1. mars á síðasta ári undir nafninu AB596 og nokkrum dögum síðar tók lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson við félaginu. Í október á síðasta ári var greint frá því í fjölmiðlum að Björn Ingi Hrafnsson athafnamaður væri orðinn eigandi og framkvæmdarstjóri BOS ehf.

Stundin greindi frá því að árangurslaust fjárnám hefði verið gert í BOS ehf. í febrúar á þessu ári og að greiðsluáskoranir hefðu borist félaginu frá lífeyrissjóðum tveimur mánuðum eftir að hann tók við félaginu.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir