Þarf að hafa áhyggjur af Kína?

Hafnarstarfsmenn í Qingdao í austurhluta Kína fylgjast með flutningaskipi við …
Hafnarstarfsmenn í Qingdao í austurhluta Kína fylgjast með flutningaskipi við bryggju í nóvembermánuði. AFP

Hagvöxtur í Kína fer minnkandi og ýmis merki eru um að vandi sé kínverska efnahagskerfinu fyrir höndum, meðal annars vegna viðskiptadeilu Bandaríkjanna og Kína. 28% tap var á viðskiptum með hlutabréf á kínverska hlutabréfamarkaðnum í fyrra og það var hvergi meira á heimsvísu, samkvæmt því sem fram kemur í fréttaskýringu á vef breska ríkisútvarpins, BBC.

Þar er fjallað um þau áhrif sem minnkandi vöxtur kínverska hagkerfisins, þessa risastóra markaðar, hefur á heimsvísu og hvort hann sé eitthvað til þess að hafa áhyggjur af.

Vandræði Apple, sem í vikunni þurfti að senda frá sér viðvörun til fjárfesta vegna lakari afkomu á fyrsta ársfjórðungi 2019 en búist hafði verið við, eru að mestu rakin til þess að hægt hefur á sölu varnings fyrirtækisins á borð við farsíma á hinum risastóra kínverska neytendamarkaði. Þangað sækir Apple um 20% af tekjum sínum.

Apple er ekki eina alþjóðlega stórfyrirtækið sem hefur lent í vanda eða lýst yfir áhyggjum af stöðunni í Kína. Bílaframleiðendurnir General Motors, Ford og Fiat Chrysler eru á meðal fyrirtækja sem hafa lýst yfir áhyggjum af mögulegum áhrifum viðskiptaskæra á milli Bandaríkjanna og Kína, auk þess sem bílaframleiðandinn Jaguar Land Rover segir að hægst hafi um hjá fyrirtækinu á kínverska markaðnum.

Kínversk kona handfjatlar iPhone-síma fyrir utan Apple-búð í Peking í …
Kínversk kona handfjatlar iPhone-síma fyrir utan Apple-búð í Peking í gær. AFP

Kínversk fyrirtæki hafa sömuleiðis áhyggjur, ef marka má viðskiptafréttir síðustu vikur og mánuði. Í þessari viku sagði Robin Li, forstjóri kínversku leitarvélarinnar Baidu, að starfsmenn fyrirtækisins ættu að búa sig undir það að hægja færi á. Það gerði Li sjálfur með því að ávarpa starfsmenn með Game of Thrones-frasanum „veturinn er á leiðinni“.

Samkvæmt frétt BBC eru þó ekki öll vestræn fyrirtæki í vanda stödd á kínverska markaðnum. Í september síðastliðnum tilkynnti Nike að sölur fyrirtækisins í Kína hefðu aukist um 24% í kjölfar vel heppnaðrar auglýsingaherferðar þar sem NFL-leikstjórnandinn Colin Kaepernick var í aðalhlutverki.

Minnkandi vöxtur en ekkert öngstræti

En hver er staða kínverska hagkerfisins? Samkvæmt tölum frá Alþjóðabankanum var hagvöxturinn um 6,3% árið 2017, sem er langtum meira en gengur og gerist í þróuðum hagkerfum Vesturlanda, en þó svo sé hefur vöxturinn í Kína dregist saman undanfarinn áratug, frá því árið 2010, er hagvöxtur mældist 10,1%. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býst við því að hagvöxturinn fari enn minnkandi á næstu árum.

Hægst hefur á kínverska hagkerfinu undanfarin ár og þess er …
Hægst hefur á kínverska hagkerfinu undanfarin ár og þess er vænst að sú þróun haldi áfram. Graf/Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

BBC hefur eftir Louis Kuijs, hagfræðingi við Oxford-háskóla sem sérhæfir sig í asískum fjármálamörkuðum, að hagvöxturinn muni þó ekki minnka mikið til viðbótar, heldur verði hagvöxtur um 6,1% á þessu ári og hann muni ekki fara langt niður fyrir það á allra næstu árum.

„Þrátt fyrir að það sé að hægjast á í kínverska hagkerfinu, er það ekki í neinu öngstræti,“ segir hagfræðingurinn, sem telur afkomuviðvörun Apple ekki sérlega góða vísbendingu um heildarstöðu hagkerfisins, né heldur endilega einkaneyslu Kínverja í heild.

Vandamál sem þarf að bæta úr

George Magnus, annar hagfræðingur við Oxford sem sérhæfir sig í málefnum Kína, segir að vaxandi áhyggjur séu af því eftirlits- og regluleysi sem geri kínverska hagkerfið frábrugðið öðrum hagkerfum heimsins. Þar í landi séu margs konar vandamál sem þurfi að takast á við. Í því samhengi nefnir hann að flókin „skuggabankastarfsemi“ viðgangist í Kína þar sem lítið eftirlit sé með lánastarfsemi, auk þess sem ógn stafi af netnjósnum stjórnvalda og afslappaðri höfundarréttarlöggjöf.

Neikvæðar fréttir um þróun kínverska hagkerfisins hafa vakið áhyggjur, en …
Neikvæðar fréttir um þróun kínverska hagkerfisins hafa vakið áhyggjur, en þær eru að mestu óþarfar, að sögn tveggja hagfræðinga við Oxford. Mynd tekin í Hong Kong á dögunum. AFP

Þrátt fyrir að ekki líti út fyrir að neinar efnahagshörmungar séu fram undan í Kína, er eðlilegt að fylgjast grannt með stöðunni þar í landi, enda myndar hagkerfið kínverska æ stærri sneið af hagkerfi heimsins, eða um 19% af heildarframleiðslu á þessu ári, samkvæmt tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessi tala var um 7% um aldamót.

Stærð hagkerfisins er orðin slík, að sögn Magnus, að kínversk eftirspurn stjórnar nokkurn veginn heimsmarkaðsverðinu á ýmsum vörum og nefnir hann sem dæmi að um helmingur alls stáls, kopars, kola og sements sem framleitt er í heiminum sé flutt til Kína. Ef Kínverjar fara að kaupa minna, af þessum vörum og mörgum öðrum, myndi það líklega leiða til verðfalls.

Magnus segir þó að ekki skyldi hafa of miklar áhyggjur. „Ég held að það sé enginn að hugsa það þessa stundina að efnahagur Kína sé á leið fram af hengiflugi, það er bara svo að hann er kominn niður úr þeim háfleygu hæðum sem hagkerfið hefur verið í undanfarinn áratug eða meira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK